Það hefur líklega ekki farið framhjá mörgum MMA áhugamönnum að UFC 300 verður haldið um helgina í Las Vegas, Nevada. Blaðamannafundurinn var haldinn í gær og kom eitt og annað í ljós þar.
Eins og vaninn er berast spurningar úr salnum frá áhorfendum. Blaðamaður nokkur fékk hljóðnemann og bar upp spurningu til Dana White. Hann sagðist hafa talað við bæði Justin Gaethje og Max Holloway og sagði að þeir báðir hefðu sagt að þeir vildu fá Mark Coleman til að afhenda sigurvegaranum BMF beltið og áður en hann náði að klára setninguna svaraði Dana White: “Done”
Hann spurði svo í kjölfarið hvort bónusar gætu verið hækkaðir úr 50.000 dollurum fyrir þennan sérstaka viðburð. Dana White spurði þá hversu mikið hann ætti að hækka þá og þá heyrðust hróp og köll frá öðrum hverjum manni í húsinu. Einhver nefndi að þrefalda bónusana og annar hrópaði “þrjú hundruð þúsund” sem Dana svaraði einnig: “Done” öllum bardagamönnum og öðrum viðstöddum til mikillar ánægju.
Hinn 40 ára gamli Jim Miller, sem barðist á UFC 100, 200 og núna 300, var spurður út í hvort hann myndi koma aftur á 400 ef hann vinnur um helgina. Hann sagði þá að hann myndi gera það ef Dana myndi gefa 400.000 dollara bónusa þá.
Það verður því enn meira í húfi á þessum tímamóta viðburði og er óhætt að segja að við megum búast við ógleymanlegu kvöldi!