Hnefaleikafélag Reykjavíkur var með 10 keppendur á Legacy Cup í Noregi um helgina. Hópurinn tók fjögur gull og var valinn besti klúbburinn á mótinu.
HR/Mjölnir var með 10 keppendur á mótinu um helgina í Þrándheimi og var sá klúbbur sem var með flesta keppendur á mótinu. 224 þátttakendur voru á mótinu í heildina frá 40 klúbbum og níu þjóðum.
Elmar Gauti Halldórsson tók gull í -81 kg flokki, Alanas Noreika tók gull í -69 kg flokki en hann fékk einnig verðlaun sem besti junior boxari mótsins. Sindri Snorrason tók gull í -64 kg flokki og Heba María Ægisdóttir tók gull í -57 kg flokki. Heba átti upphaflega að keppa í -54 kg flokki en hennar keppandi mætti ekki og fór hún því upp um flokk og sigraði.
Frábær árangur en HR/Mjölnir fékk auk þess verðlaun fyrir að vera besti klúbbur mótsins.
Á laugardaginn fer síðan Iceland Open Health and Fitness Expo fram í Laugardalshöllinni þar sem 12 áhugamannabardagar í boxi fara fram.