Tuesday, June 18, 2024
spot_img
HomeErlentÁ uppleið: Miranda Maverick (UFC 254)

Á uppleið: Miranda Maverick (UFC 254)

Það eru alltaf áhugaverðir nýliðar á hverju bardagakvöldi. Einn áhugaverðasti nýliði helgarinnar er Miranda Maverick.

Aldur: 23 ára
Bardagaskor: 7-2
Rothögg: 0
Uppgjafartök: 5
Stærsti sigur: Pearl Gonzalez á Invicta FC 39

Núna um helgina á UFC 254 bardagakvöldinu mun unga bardagakonan Miranda Maverick þreyta frumraun sína í UFC. Maverick er 23 ára og er frá Missouri fylki í Bandaríkjunum. Sem atvinnumaður er hún 7-2 en þar á undan var hún 7-1 sem áhugamaður. Maverick berst í 125 punda fluguvigt og miðað við hvað sú deild er þunn gæti vel verið að hún blandi sér í toppbaráttuna á næstu árum. Ekki er nóg með það að hún sé efnileg bardagakona heldur er hún einnig í meistaranámi í sálfræði.

Í frumraun sinni í UFC mun hún mæta hinni Georgísku Liana Jojua sem er 1-1 í UFC. Helsta afrek Maverick á ferlinum var að vinna Phoenix Series 2 mótið hjá Invicta, sem er mót í anda fyrstu UFC kvöldanna þar sem það er útsláttarkeppni og allir bardagarnir eru sama kvöldið.

Íslendingar ættu líklegast að kannast við þessi mót þar sem Sunna “Tsunami” tók þátt í Phoenix Series 1 sem var samskonar mót. Til að vinna mótið þarf að fara í gegnum tvo einnar lotu bardaga og síðan er þriggja lotu bardagi í úrslitum. Úrslitabardagann vann Maverick með uppgjafartaki í þriðju lotu. Andstæðingur hennar í bardaganum var DeAnna Bennett en hún tók þátt í 26. seríu af TUF. Þetta var í annað skiptið sem þær mættust í búrinu og vann Bennet í fyrra skiptið þannig að Maverick er augljóslega að bæta sig.

Þegar Maverick var 16 ára byrjaði hún að æfa brasilískt jiu-jitsu eftir að hafa horft á Ronda Rousey í UFC. Þá gekk hún líka í glímuliðið í framhaldsskóla og glímdi þar aðallega við stráka. Síðan gaf hún glímuna upp á bátinn þegar hún sá fram að hún væri ekki að fara í háskólaglímuna en eftir það einbeitti hún sér alfarið að brasilísku jiu-jitsu.

Eftir að hún útskrifaðist úr framhaldsskóla ákvað hún að einbeita sér að MMA. Einungis einum og hálfum mánuði seinna tók hún sinn fyrsta bardaga sem áhugamaður og vann hann í fyrstu lotu. Þá tók hún átta bardaga á innan við ári og tapaði einungis einum. Á þessu fyrsta ári vann hún tvö belti og var efst á styrkleikalista Tapology yfir 115 punda áhugamenn á sínu svæði. Þá ákvað hún að gerast atvinnumaður og tók sinn fyrsta bardaga í Invicta og vann með uppgjafataki í fyrstu lotu. Síðan var hún tvisvar í röð á sama bardagakvöldi og Sunna “Tsunami” þetta voru Invicta 22 og 24. Þær unnu báðar bardagana sína á þessum kvöldum og vann Sunna þarna Mallory Martin sem er núna í UFC.

Hennar síðasti bardagi í Invicta fór fram í febrúar á þessu ári gegn Pearl Gonzalez sem áður var í UFC. Maverick vann eftir dómaraákvörðun og hefur nú unnið þrjá bardaga í röð. Með þessum sigri vakti hún athygli UFC og átti hún að berjast sinn fyrsta bardaga í UFC í júní á móti Mara Borella. Í læknisskoðun á vegum UFC fyrir bardagann komst upp um meiðsli sem komu í veg fyrir að hún gæti barist. Samkvæmt henni voru þessi meiðsli mjög alvarleg en hún hefur aldrei gert það opinbert hvað það var sem hrjáði hana. Núna er hún mætt á bardagaeyjuna til að keppa við Liana Jojua og er vonandi laus við meiðslin.

Bardagastíll

Grunnurinn hjá henni er glíma en hún er kominn með gott Muay Thai. Helsti styrkleiki hennar er hvað hún er sterk og góður íþróttamaður. Það má segja að hún sé með þennan bóndastyrk þar sem hún er eiginlega alltaf sterkari aðilinn í búrinu þó að hún sé nánast alltaf að berjast við eldri stelpur og hafi gert frá því hún byrjaði. Maverick er einnig með gott þol sem sást þegar hún vann DeAnna Bennett í þriðju lotu en það var fimmta lotan sem hún barðist það kvöldið.

Hversu langt fer hún?

Maverick gæti alveg verið komin inn á topp 10 í fluguvigtinni innan skamms og verður spennandi að fylgjast með henni í framtíðinni.

Sævar Helgi Víðisson
Sævar Helgi Víðisson
- Fjölmiðlafræðinemi - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Langt leiddur MMA aðdáandi
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular