spot_img
Monday, December 23, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentÁhugaverðustu MMA bardagar í júlí 2016

Áhugaverðustu MMA bardagar í júlí 2016

UFC-200-645x370

Eftir nokkuð rólegan júní, fyrir utan nokkra fótboltaleiki, hellist júlí yfir okkur á næstu dögum með látum. Á sama tíma í fyrra voru fimm UFC kvöld með 54 bardögum þar sem hápunkturinn var hið eftirminnilega UFC 189. Í ár eru UFC kvöldin sex með hvorki meira né minna en 69 bardögum!

Við erum með titilbardaga í strávigt kvenna, fluguvigt, bantamvigt kvenna, fjaðurvigt, veltivigt og létt þungavigt. Hápunkturinn er UFC 200, þann 9. júlí, sem á að toppa UFC 100 sem fram fór 11. júlí árið 2009. Lítum yfir hlaðborðið.

10 góðir sem komust ekki á listann, í engri sérstakri röð:
Ross Pearson gegn Will Brooks (léttvigt)
Holly Holm gegn Valentina Shevchenko (bantamvigt kvenna)
John Lineker gegn Michael McDonald (bantamvigt)
Matt Brown gegn Jake Ellenberger (veltivigt)
Cat Zingano gegn Julianna Peña (bantamvigt kvenna)
Johny Hendricks gegn Kelvin Gastelum (veltivigt)
T.J. Dillashaw gegn Raphael Assunção (bantamvigt)
Diego Sanchez gegn Joe Lauzon (léttvigt)
Roy Nelson gegn Derrick Lewis (þungavigt)
Paul Daley gegn Douglas Lima (veltivigt – Bellator)

lesnar hunt

10. UFC 200, 9. júlí – Brock Lesnar gegn Mark Hunt (þungavigt)
Hverslags ofurmannlegu hreðjar þarf maður að hafa til að skora á Mark Hunt eftir fimm ára fjarveru. Hugrekki eða heimska? Hvað sem því líður þá eru við að fá sjálfan Brock Lesnar í búrið eftir aðeins örfáa daga, það hlýtur að kitla aðeins. Lesnar er skriðdreki en Hunt er rúllandi fallbyssa, alltaf með kúlu í hlaupinu.

Spá: Lesnar mun stökkva á Hunt líkt og hann gerði gegn Cain Velasquez en éta upphögg og falla kylliflatur á fyrstu mínútu í fyrstu lotu.

johnson reis

9. UFC 201, 30. júlí – Demetrious Johnson gegn Wilson Reis (fluguvigt)
Demetrious Johnson er ítrekað búinn að sanna sig sem einn besta bardagamann í heimi. Hann er sá UFC meistari sem er með mestu yfirburði yfir alla aðra í þyngdarflokknum og hann er svo gott sem búinn að hreinsa út úr deildinni enda mætir hann hér manni númer átta á styrkleikalistanum. Hann er fyrsti og eini UFC meistarinn í fluguvigt og er búinn að verja titilinn 8 sinnum. Það verður spennandi að sjá hvort hann nái að slá met Anderson Silva en hann náði 10 titilvörnum. Wilson Reis er góður glímumaður en það getur verið erfitt að sigra DJ með einfalda bardagaáætlun, spyrjið bara Henry Cejudo.

Spá: Demetrious Johnson sigrar með einhverri gargandi snilld, segjum fljúgandi hné í annarri lotu.

melendez-barboza

8. UFC on Fox 20, 23. júlí – Edson Barboza gegn Gilbert Melendez (léttvigt)
Þessi gullmoli bíður okkar þegar líða fer á júlí mánuð. Þessa menn þarf ekki að kynna. Báðir eru grjótharðir og geta á góðum degi unnið nánast hvern sem er í þyngdarflokknum. Edson Barboza afgreiddi Anthony Pettis í hans síðasta bardaga en Melendez er í verri stöðu eftir töp gegn einmitt Anthony Pettis og Eddie Alvarez.

Spá: Melendez mun pressa en Barboza er með hraðari hendur og beittari spörk. Barboza sigrar á stigum.

miesha-tate-nunes

7. UFC 200, 9. júlí – Miesha Tate gegn Amanda Nunes (bantamvigt kvenna)
Amanda Nunes er ekki beint stærsta nafnið á UFC 200 en hún gæti komið á óvart. Hún er með svart belti í Jiu-Jitsu og brúnt í Júdó. Ferilskráin hennar er 5-1 í UFC, eina tapið var gegn Cat Zingano sem einmitt sigraði líka Misha Tate. Tate er alhliða góð MMA bardagakona og þrátt fyrir fjólublátt belti í Jiu-Jitsu ætti hún að vera með svart belti í MMA glímu. Þessi bardagi fer sennilega í gólfið nokkrum sinnum sem ætti að verða mjög áhugavert.

Spá: Nunes er góð en Tate hefur séð þetta allt áður. Tate sigrar á stigum.

Velasquez-Browne

6. UFC 200, 9. júlí – Cain Velasquez gegn Travis Browne (þungavigt)
Nú er að duga eða drepast fyrir Cain Velasquez. Hann átti að vera hinn útvaldi, sá sem gæti loksins haldið beltinu í langan tíma en það varð ekki raun. Nú þarf Cain að minna rækilega á sig og sanna að tapið gegn Fabricio Werdum var vegna þunna loftsins í Mexíkó. Fyrir Travis Browne er þetta frábært tækifæri til að næla sér í sigur gegn risastóru nafni og skjótast eins og borðtenniskúla upp styrkleikalistann.

Spá: Cain Velasquez mætir trylltur til leiks, tekur Browne niður og lemur hann á gólfinu. Tæknilegt rothögg í annarri lotu.

joanna-jedrzejczyk-vs-claudia-gadelha

5. TUF 23 Finale, 8. júlí – Joanna Jędrzejczyk gegn Cláudia Gadelha (strávigt kvenna)
Um eitt og hálft ár er liðið síðan þessar flottu bardagakonur mættust fyrst. Sá bardagi var jafn og spennandi en Joanna champion sigraði eftir klofinn úrskurð dómaranna. Tapið er það eina á ferli á Gadelha og hún virðist hafa haft betur í sálfræðihernaði í The Ultimate Fighter þáttunum. Það verður því mjög áhugavert að sjá hvort að nýr meistari verði krýndur í strávigt kvenna í júlí.

Spá: Joanna Jędrzejczyk hefur barist oftar síðan þær mættust og virðist bara verða betri og betri. Í þetta sinn verður bardaginn fimm lotur sem ætti að vera meistaranum í vil. Jędrzejczyk sigrar á stigum.

dos anjos alvarez

4. UFC Fight Night 90, 7. júlí – Rafael dos Anjos gegn Eddie Alvarez (léttvigt)
Margir hefðu viljað sjá Khabib Nurmagomedov í þessum bardaga gegn Rafael dos Anjos en tímasetningin gekk ekki upp og boltinn þarf að rúlla áfram. Eddie Alvarez er hinsvegar vel að þessu tækifæri kominn, enda fyrrverandi meistari í Bellator og með flotta sigra gegn Anthony Pettis og Gilbert Melendez í hans síðustu tveimur bardögum.

Spá: Rafael dos Anjos gerist mannlegur tætari og nagar Alvarez niður þar til dómarinn neyðist til að stoppa blóðbaðið í fjórðu lotu.

Lawler-Woodley

3. UFC 201, 30. júlí – Robbie Lawler gegn Tyron Woodley (veltivigt)
Aðeins til að rifja upp. Robbie Lawler gæti hafa verið í bardaga ársins þrjú ár í röð. Fyrst gegn Johny Hendricks árið 2014, svo gegn Rory MacDonald í fyrra og í ár gegn Carlos Condit. Maðurinn er einhverskonar tortímandi sendur til að myrða veltivigtarflokkinn í UFC. Næsta fórnarlamb, Tyron Woodley, er kannski ekki draumaandstæðingur en hann er með þungar hendur og er mjög sterkur glímumaður. Hvað sem því líður þá er Lawler alltaf must see TV!

Spá: Robbie Lawler verst fellum, nagar niður og rotar Tyron Woodley í þriðju lotu.

Jose_Aldo_vs_Frankie_Edgar

2. UFC 200, 9. júlí – José Aldo gegn Frankie Edgar (fjaðurvigt)
Hér er barist um interim beltið í fjaðurvigt en í raun ættu José Aldo og Frankie Edgar að fá að berjast um laust belti þar sem Conor McGregor hefur haldið titlinum í gíslíngu í heilt ár og óvíst er hvort hann muni nokkurn tímann snúa aftur í fjaðurvigt. Það skiptir samt ekki öllu máli þar sem þessi bardagi er alveg nógu klikkaður einn og sér. Fyrsti bardaginn var mjög jafn, Aldo vann fyrstu loturnar en Edgar þær síðari. Aldo vann að lokum á stigum en sá sigur var umdeildur. Spurningin er því núna, hvor þeirra er orðinn betri og hvor lærði meira af fyrsta bardaganum og gerði viðeigandi breytingar.

Spá: Frankie Edgar mun byrja hraðar en síðast og tryggja sér sigur á stigum.

jones dc

1. UFC 200, 9. júlí – Daniel Cormier gegn Jon Jones (létt þungavigt)
Fyrsti bardagi Jon Jones og Daniel Cormier var jafnari en margir muna eftir. Það kom mörgum á óvart að Jones valdi að berjast mikið í návígi í stað þess að notfæra sér sína miklu faðmlengd. Það kom líka á óvart að Jones gat tekið Cormier niður í þrígang á meðan Cormier náði bara einni fellu í blálokin. Þessir bardagi er nánast baráttan um pund fyrir pund titilinn. Sigri Cormier verður það hápunkturinn á ferlinum og markar kaflaskipti í létt þungavigt. Sigri Jones endurheimtir kóngurinn beltið sitt og staðfestir að hann er sá allra besti í heimi hér.

Spá: Jones hefur aldrei tapað á ferlinum, þar með talið gegn Cormier, það er því erfitt að spá á móti honum. Það væri gaman að sjá rothögg eða uppgjafartak en líklega sigrar hann aftur á stigum.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular