Ilia Topuria yfirgaf fjaðurvigt UFC og um leið titilinn þegar hann tilkynnti um að hann myndi berjast í léttvigtinni héðan af og er þá enginn meistari í fjaðurvigtardeild UFC sem stendur. Af mörgum var talið ljóst að næsti titilbardagi Topuria yrði gegn Alexander Volkanovski sem var fjaðurvigtarmeistari áður en hann var rotaður af Topuria fyrir um ári síðan.
Nú er orðið ljóst að Volkanovski mun berjast um fjaðurvigtartitilinn á UFC 314 sem haldið verður í Miami í Bandaríkjunum þann 12. apríl næstkomandi. Hann mun berjast þar við Diego Lopes en það hefur vakið nokkra athygli þar sem margir höfðu horft til Movsar Evloev sem kjörinn mótherja gegn Volkanovski, sérstaklega í ljósi þess að Evloev sigraði Lopes árið 2023 með einróma dómaraákvörðun í frumraun Lopes í UFC.
Það verður ekki tekið frá Lopes að frá tapinu gegn Evloev hefur hann verið sjóðandi heitur og raðað inn sigrum en hann barðist þrjá bardaga árið 2023 þar sem hann sigraði tvo, þá sigraði hann þrjá bardaga árið 2024, nú síðast gegn Brian Ortega sem lengi hefur verið í fremstu röð í fjaðurvigtardeild UFC.
Hvort sem áhugamenn um blandaðar bardagalistir séu sammála því að Lopes eigi skilið að fá titilbardaga fram yfir Evloev verður bardagi milli Lopes og Vokanovski væntanlega frábær skemmtun og verður erfitt að neita Evloev um að fá færi á því að berjast við sigurvegara úr þeirri viðureign.
Fleiri skemmtilegir bardagar eru á UFC 314 en þar má nefna Michael Chandler gegn Paddy Pimplett, Yair Rodriguez gegn Patricio Pitbull en lista yfir bardaga kvöldsins má sjá í færslu UFC á X hér að neðan.