Íslandsmeistaramótið í Hnefaleikum 2025 var haldið um helgina í húsakynnum World Class Boxing Academy í Kringlunni og fram fóru margir þrælgóðir bardagar. Strákarnir frá Bogatýr – Artem, Mihail, Viktor og Gabríel sóttu allir gullið með frábærum frammistöðum og fer Bogatýr heim með fullt hús stiga.
Artem Siurkov
Artem Siurkov mætti Arnari Jaka Smárasyni frá Hnefaleikafélagi Kópavogs og sigraði hann á einróma dómaraákvörðun rétt eins og hann gerði á HFH Open fyrir tæpum mánuði síðan. Artem sem hefur töluverða reynslu framyfir Arnar Jaka leit mjög vel út alveg frá byrjun og var alltaf að lenda meira en Arnar Jaki þegar þeir komu saman og stjórnaði Artem hraðanum á bardaganum. Arnar Jaki lét þó ekkert vaða yfir sig, svaraði oft vel og fast fyrir sig og átti sín augnablik. Artem sigraði þó á afgerandi hátt og hefði alveg getað átt tilkall til Bensabikarins.

Mihail Fedorets
Mihail Fedorets mætti Sölva Steini Hafþórssyni frá Hnefaleikafélagi Kópavogs og svipaða sögu má segja frá þeim bardaga. Mihail og Artem hafa líklega æft mikið saman fyrir þennan bardaga þar sem Artem er southpaw og Mihail var að undirbúa sig fyrir Sölva sem er einnig southpaw. Mihail aftur á móti er orthodox rétt eins og Arnar Jaki andstæðingur Artems. Bæði Mihail og Artem virtust gera alla réttu hlutina til að stjórna bardögum sínum og virkaði þeirra leikur þaulskipulagður og agaður.

Viktor Zoega
Viktor Zoega mætti Nóel Frey Ragnarssyni frá Hnefaleikafélagi Reykjavíkur í hnífjöfnum bardaga sem endaði með klofinni dómaraákvörðun sem fór í Viktors horn. Þetta var líklega besti bardagi mótsins og börðust þeir tveir eins og ljón fram í bláendann og var síðasta hálfa mínútan algjör hápunktur þar sem báðir menn voru að reyna allt sem þeir gátu til að vinna sér inn sigurinn. Niðurstaðan á endanum þriðji sigur Bogatýrs manna með einn eftir.

Gabríel Marínó Róbertsson
Síðasta viðureign Bogatýrsmanna var bardagi Gabríels Marínó Róbertssonar og Þorsteins Helga Sigurðarsonar frá Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar sem Gabríel sigraði með einróma dómaraákvörðun. Gabríel átti mjög sannfærandi frammistöðu í þessum bardaga og náði Þorsteinn aldrei að finna taktinn sinn almennilega. Þorsteinn er mjög reyndur boxari og lét ekkert vaða yfir sig en náði aldrei almennilega að setja í sóknargírinn þegar það var bara of mikið að gera hjá honum að spá í vörninni sinni enda er Gabríel gífurlega höggþungur maður sem veður stöðugt áfram og kýlir í magni. Gabríel gerði einnig sterkt tilkall til Bensabikarins sem fór þó til Ísaks Guðnasonar frá Hnefaleikafélagi Kópavogs fyrir 2 afar sterka sigra á mótinu.
