spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentAllt þarf að ganga upp í kvöld

Allt þarf að ganga upp í kvöld

Sunna Rannveig Davíðsdóttir keppir í kvöld í afar áhugaverðu strávigtarmóti Invicta, Phoenix Rising. Sunna þarf að vinna þrjá bardaga til að vinna mótið og er ljóst að sigurvegari mótsins þarf að hafa vel fyrir sigrinum.

Það má ekkert klikka hjá keppendum mótsins í kvöld til að fara alla leið. Þegar komið er í útsláttarmót eins og þetta skipta smáatriðin miklu máli. Keppendur þurfa að keppa þrjá bardaga á einu kvöld til að vinna mótið en fyrstu tveir bardagarnir eru þó bara ein fimm mínútna lota hver en úrslitabardagann hefðbundinn þriggja lotu bardagi.

Hver bardagi verður erfiður enda allar jafn ákveðnar í að tryggja sér titilinn. Það eru margar breytur til staðar hjá bardagakonunum átta og má ekkert fara úrskeiðis.

Fyrstu tvo bardagana þarf auðvitað að vinna en það skitpir gríðarlega miklu máli að komast vel úr bardögunum og þokkalega meiðslalaus. Það er ekki í boði að fá neina skurði eða meiðsli sem hafa áhrif á næstu bardaga. Einn skurður á andliti í fyrsta bardaga getur sett allt í bál og brand hjá keppendum. Skurður gæti bæði truflað keppanda allt kvöldið eða jafnvel komið í veg fyrir að keppandi fái að halda áfram í næstu umferð þar sem íþróttasambandið í Kansas mun skoða vel hverja keppendur fyrir hvern bardaga.

Taktíkin þarf því að vera að vissu leyti ólík heldur en gengur og gerist í venjulegum bardaga. Keppendur þurfa að passa sig á t.d. spörkunum enda getur eitt venjulegt spark sem hittir óvart olnboga andstæðingsins eða hné auðveldlega ristarbrotið keppendur. Það er hægt að fara í gegnum þannig meiðsli í bardaga á meðan adrenalínið er á fullu en sársaukinn og bólgan mun síðan koma á meðan beðið er eftir næsta bardaga. Keppendur fá að lágmarki 30 mínútur á milli bardaga og er erfitt að koma inn í næsta bardaga með brákaða/brotna rist. Keppendur þurfa því að huga vel að því hvar spörkin hitta.

Við vitum líka að Sunna hefur verið að glíma við handarmeiðsli lengi sem hafa haldið henni frá búrinu í 21 mánuð. Sunna sagði í viðtali við okkur á dögunum að höndin væri orðin eins góð og hún verður en verði sennilega aldrei 100% í lagi aftur. Þetta verður fyrsti bardaginn hennar eftir handarmeiðslin og verður því áhugvert að sjá hvort höndin þoli að hitta í höfuð andstæðinga. Það er eitt að kýla eins fast og þú getur í mjúka púða, annað að kýla í harða hausa.

Þegar bardaginn er bara fimm mínútur getur ein fella skipt gríðarlega miklu máli. Ein fella á fimm mínútum þar sem keppandi nær að halda andstæðingnum í gólfinu í um 60 sekúndur getur verið nóg til að tryggja sigur. Við vitum að Sunna er með fínar fellur og er mjög líkamlega sterk.

Það verður líka áhugavert að sjá hvernig keppendum tekst að hvíla sig eftir bardaga þegar adrenalínið dvínar og keyra sig svo aftur upp í næsta bardaga. Flestar af þessum stelpum hafa upplifað það áður að keppa á glímumótum þar sem þarf að keppa margar glímur á einum degi. Það er þó talsvert meira adrenalín í gangi í MMA bardaga en í glímu. Þeir Íslendingar (meðal annars Sunna) sem hafa keppt á EM og HM í MMA þar sem keppa þarf marga bardaga á nokkrum dögum hafa sagt að það erfiðasta við mótin er að keyra sig aftur upp andlega eftir bardaga. Hausinn þarf því að vera rétt stilltur fyrir hvern bardaga og þýðir ekkert að ætla að byrja aðra umferð rólega eftir fyrsta bardagann.

Þetta þarf allt að hafa í huga á meðan reynt er auðvitað að vinna bardaga. Mótið er því mikil áskorun fyrir alla keppendur og verður virkilega spennandi að sjá hvernig þetta mun spilast. Sigurlíkurnar eru nokkuð jafnar enda eru svo margar breytur í spilinu í svona móti. Auk þess féllu tveir sigurstranglegir keppendur úr leik í gær þar sem þær náðu ekki vigt og gæti þetta því varla verið jafnara!

Bardagakvöldið hefst á miðnætti í kvöld og er bardagi Sunnu og Kailin Curran fyrsti bardagi kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular