spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentAnderson Silva hótar því að hætta fái hann ekki titilbardaga gegn Yoel...

Anderson Silva hótar því að hætta fái hann ekki titilbardaga gegn Yoel Romero

Goðsögnin Anderson Silva lét gamminn geysa í The MMA Hour í gær. Þar sagðist hann vera þreyttur á að bíða eftir andstæðingi fyrir UFC 212 og ætlar að hætta fái hann ekki bardagann sem hann vill.

Anderson Silva átti að mæta Kelvin Gastelum á UFC 212. Gastelum féll hins vegar á lyfjaprófi í síðasta mánuði og var bardaginn því af borðinu. UFC reyndi að fá aðra bardagamenn í stað Gastelum en Silva hefur hafnað þeim öllum. Silva hafnaði bardögum gegn Vitor Belfort og Luke Rockhold þar sem þeir eru að koma til baka eftir tap á meðan Silva vann sinn síðasta bardaga. Silva vann Derek Brunson á UFC 208 í febrúar en það var hans fyrsti sigur síðan árið 2012.

Yoel Romero virðist vera eini andstæðingurinn sem Silva vill núna og verður það að vera um bráðabirgðartitilinn í millivigtinni. „Ef ég fæ ekki þennan titilbardaga er ég hættur. Ég ætla að eyða tíma með fjölskyldunni. Ég er hættur,“ sagði Silva í The MMA Hour í gær.

„Ég skal berjast við Yoel Romero. Ég virði Yoel Romero, hann er frábær bardagamaður og er í 1. sæti á styrkleikalistanum. En hvers vegna ætti Romero að koma til Brasilíu og berjast við mig ef það er ekkert í húfi?“

Romero hringdi inn í The MMA Hour og sagðist vera til í að mæta Silva á UFC 212, en bara ef titill væri í húfi. Annars mun hann bíða eftir sínum titilbardaga.

Silva er reiður út í UFC fyrir að gefa honum ekki eftirsóknarverða bardaga eftir að Gastelum datt út. Æfingabúðirnar hafa kostað sitt og hann vill ekki valda aðdáendum vonbrigðum sem hafa keypt miða til að sjá hann.

„Þetta er fullkomið rugl. Ég er þreyttur, ég er svo þreyttur. Ég hef ávallt sýnt virðingu og hef aldrei talað illa um UFC. Ég held ég sé búinn. Ég er búinn að vera að berjast lengi og ég er þreyttur. Ég er í miklu uppnámi en ég hef arfleifð mína og mína sögu. Þetta er mjög pirrandi þar sem þetta er í annað sinn sem ég fæ ekki að berjast í heimalandi mínu.“ Á Silva þar við þegar hann missti af tækifærinu til að keppa á UFC 198 í fyrra vegna gallblöðruaðgerðar.

UFC 212 fer fram þann 3. júní í Rio í Brasilíu. Viðtalið við Anderson Silva má hlusta á hér að neðan.

https://www.youtube.com/watch?v=GT3gD_dubKM

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular