spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaAron Leó: Ömurlegt að mæta manni sem átti ekki erindi í búrið

Aron Leó: Ömurlegt að mæta manni sem átti ekki erindi í búrið

Bardagamaðurinn Aron Leó Jóhannsson fékk óvænta athygli á dögunum þegar mynd úr bardaga hans fór í dreifingu á samfélagsmiðlum og á netmiðlum. Aroni hafa borist fjölmörg skilaboð eftir bardagann en segir það ömurlegt að hafa þurft að mæta manni sem átti ekkert heima í búrinu.

Aron Leó barðist á Evolution of Combat bardagakvöldinu í Skotlandi þann 11. september. Bardaginn entist aðeins í örfáar sekúndur en eftir eitt högg frá Aroni hrundi andstæðingurinn í gólfið og stöðvaði dómarinn bardagann.

Fjallað var um bardagann á stórum miðlum á borð við The Sun, The Mirror og Lad Bible eftir að blaðamaðurinn Harry Williams birti mynd úr bardaganum.

Bardaginn var sagður vera á milli Arons og Connor Knight en nafn andstæðingsins virðist aðeins hafa verið uppspuni. Bardaginn var settur upp með skömmum fyrirvara og var þetta langt í frá óska andstæðingur fyrir Aron.

„Ég átti upprunalega að mæti einum Skota sem kallar sig ‘The fridge’ eða ísskápurinn [Nick Downs, 1-2 í MMA]. Síðan dregur hann sig úr keppni vegna persónulegra ástæðna og við leitum þá af nýjum andstæðingi sem skilaði engu þar til við buðum pening fyrir þann sem vildi mæta. Það voru tveir sem vildu þá taka bardagann nema annar þeirra vildi fá miklu meira borgað en það sem var boðið þannig við tókum hinn í staðinn,“ segir Aron.

Aron var á leið til Skotlands ásamt liðsfélögum sínum í Reykjavík MMA en skömmu fyrir ferðalagið fannst loks andstæðingur.

„Ég fékk ekki að vita neitt um hann. Hann var skráður 0-0 undir fake nafni þannig ég gat ekki fundið neitt um hann. Núna í Covid er vigtunin bara upp á hótel herbergi og sent inn myndband þannig að ég hafði ekki tækifæri á að sjá hann fyrir bardagann.“

„Okkur var bara sagt að hann væri á þyngd og fengum aldrei að sjá neitt video frá honum. Þannig að fyrir bardagann hafði ég ekki hugmynd um hverjum ég væri að mæta – lítill, stór eða hvað annað sem gerði þetta frekar óþægilegt fyrir mig þar sem það er gott að fá að sjá allavega líkamsbygginguna hjá andstæðinginum til að mynda sér smá hugmynd um bardagann áður en maður fer inn.“

Andstæðingurinn leit út fyrir að vera ekki deginum eldri en 15 ára og í engu formi. Það kom því fáum á óvart að bardaginn skildi hafa endað eftir örfáar sekúndur.

„Á leið í búrið leið mér bara eins og ég væri að labba inn í alvöru keppni nema órólegri út af óvissunni þar til að ég labbaði að búrinu og sá hann loksins í fyrsta skipti. Það var voða skrítið þar sem ég var búinn að gera mig til og kominn í mitt zone en síðan sé ég hann og dett alveg út og veit ekki alveg hvernig ég á að vera en held bara áfram með allt eins og þetta væri alvöru bardagi.“

„Eftir bardagann var ég bara sáttur að þetta væri búið en brjálaður inn í mér yfir þessu. Það var alveg ömurlegt að hafa lagt inn alla vinnuna og stressið til að mæta svona manni sem á ekki heima þarna.“

„Þeir [Evolution of Combat] gáfu okkur nafnið Connor Knight sem er bara eitthvað fake nafn sem þessi gæji vildi heita þar sem þetta eru journeyman sem fá borgað til að mæta í búrið en hafa litla sem enga þjálfun. Þeir skipta bara um nafn svo það sé auðveldara að fá borgaðan bardaga þar sem enginn vill eyða tímanum sínum í svona menn.“

Andstæðingurinn heitir ekki Connor Knight heldur Craig Wood. Sá er 21 árs gamall og hefur áður tekið bardaga með skömmum fyrirvara. „Íþróttin snýst um virðingu og það að taka bardaga hefur hjálpað andlegri heilsu minni. Ég stekk inn með skömmum fyrirvara svo andstæðingurinn geti að minnsta kosti mætt í búrið. Ég er í mun betra formi en ég lít út fyrir að vera. MMA er áhugamálið mitt og er þakklátur fyrir tækifærin að fá að stíga inn í búrið. Ég veit af áhættunni sem fylgir,“ sagði Wood á samfélagsmiðlum um bardagann.

Þessir bardagar eru tímasóun fyrir alla en Wood virðist engan veginn gera sér grein fyrir því. Hann telur sig vera að hjálpa bardagamönnum að fá reynslu en það er engin reynsla fólgin í því að mæta andstæðingi sem á ekkert erindi í búrið.

Gagnagrunnurinn Tapology hefur reynt að koma í veg fyrir að svona menn fái bardaga og flagga þá sem nota fölsuð nöfn. Það er þó lítið sem kemur í veg fyrir að Craig Wood finni bara annað nafn enda lítið eftirlit með þessum litlu bardagakvöldum á Bretlandseyjum. Bardagar geta verið settir saman á síðustu stundu og virðast mótshaldarar vera til í að finna bara hvern sem er til að bjarga stöku bardögum þegar bardagamenn detta út vegna meiðsla.

Evolution of Combat ber ábyrgð í þessu máli þar sem bardagasamtökin settu saman bardagann og sendu frá sér yfirlýsingu á dögunum.

„Það voru margir bardagamenn sem duttu út á síðustu stundu á þessu kvöldi og sama má segja um starfsfólkið okkar. Stundum er eina leiðin til að geta haldið bardagakvöldið að fá svona menn [eins og Craig Wood] inn og berum við þeim bestu þakkir. Þessi tiltekni bardagamaður kom inn með minna en sólarhrings fyrirvara og gaf upp þetta tiltekna nafn [Connor Knight] kvöldið fyrir bardagann,“ segir m.a. í yfirlýsingunni.

Eftir að bardaginn byrjaði að vekja athygli hefur Aroni borist fjölmörg skilaboð. „Ég er að fá þetta sent út um allt og menn að senda mér að þeir vilja bardaga við mig til þess að hefna fyrir litla strákinn og eitthvað svona sprenghlægileg atriði. Það er aðallega bara fyndið að sjá þetta út um allt og lesa commentin,“ segir Aron.

Aron ætti að vera 3-0 sem áhugamaður í MMA en bardaginn í september er nú sagður vera „sýningarbardagi“ og telst því ekki með á bardagaskorið. Aron er þó með staðfestan titilbardaga á næsta bardagakvöldi Evolution of Combat þann 19. febrúar og fær því verðugan andstæðing þar. Aron mætir þá Sean Clancy Jr. en hann hefur þegar sigrað tvo liðsfélaga Arons.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular