Ásgrímur Gunnar Egilsson lést 13. desember sl., aðeins 31 árs að aldri. Ási, eins og hann var yfirleitt kallaður, æfði með Hnefaleikafélagi Kópavogs frá 2016 og vann 3 Íslandmeistaratitla í röð: 2017, 2018 og 2019. Hann þjálfaði einnig í barna- og ungmennastarfinu í mörg ár og vann það starf með miklum sóma.
Auk þess að vera stór partur af hnefaleikasenunni hérlendis var Ási þekktur sem einn dyggasti stuðningsmaður fótbóltaliðs Fram og var hann á trommunum í stúkunni hvernig sem viðraði eins og kom fram í tilkynningu Fram á Facebook.
“Ási var einstakur gleðigjafi, alltaf í stuði og trommaði af ástríðu fyrir stuðningsmenn og leikmenn Fram, sama hvernig veðrið var. Hann var skemmtilegur, góðhjartaður og átti einstakt lag á að skapa góða stemningu á leikjum liðsins.”
VBC sendu einnig út tilkynningu um andlát Ása þar sem kemur fram hversu vel metinn hann var meðal allra í gymminu.
“Ási lýsti upp gymmið með sinni nærveru, húmor og jákvæðni. Hann hafði einstakt lag á að hrósa og hvetja nemendur og vini áfram og láta þau líða eins og þau skipta máli”
Meðal annars spilaði Ási á trommur, stundaði leiklistarnám við Kvikmyndaskóla Íslands og sat í Diplómanefnd Hnefaleikasambandsins. MMA Fréttir votta fjölskyldu og vinum Ása dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum. Ási var einstakur karakter sem vildi öllum gott og minning hans lifir áfram hjá öllum þeim sem voru svo heppnir að kynnast honum.
VBC ætla að halda opna sparræfingu nk. laugardag kl. 13:00 til þess að heiðra minningu Ása: https://www.facebook.com/events/874695004809638