Aðalbardagi UFC 321 í Abu Dhabi á laugardagskvöldið endaði með miklum vonbrigðum þegar Tom Aspinall og Ciryl Gane mættust um þungavigtarbeltið. Bardaginn var stöðvaður í fyrstu lotu eftir augnpot sem gerði Aspinall ófært um að halda áfram.
Aspinall, sem var að verja titilinn í fyrsta sinn, byrjaði bardagann vel og sýndi kraft og sjálfstraust standandi gegn Gane. Gane tókst þó að blóðga Aspinall hressilega og virtist vera að ná ágætis tökum á bardaganum þegar augnpotið kom eftir rúmar fjórar mínútur.
Menn hafa deilt mikið á internetinu síðan þá hvort augnpotið hafi verið viljandi eða óviljaverk og einnig hvort Aspinall hafi verið að leita að leið úr bardaganum. Gane reyndi að pota frá sér með opnum lófa og fingur hans lentu beint í báðum augum Aspinalls en vandamálið var aðallega hægra augað sem Gane virtist ýta djúpt inn í.
Læknir var kallaður inn í búrið sem sagðist ekki hafa áhyggjur af sjálfu auganu en Aspinall sagðist ekki sjá og þ.a.l. engin önnur leið en að enda bardagann sem „no contest“.
Aspinall var fluttur á sjúkrahús til frekari skoðunar, en fyrstu fregnir herma að engin varanleg meiðsli hafi orðið á augunum. Hann tjáði sig stuttlega á samfélagsmiðlum eftir bardagann og þakkaði stuðningsmönnum fyrir hlý orð, en sagðist mjög svekktur yfir að kvöldið skyldi enda svona. Gane baðst strax afsökunar eftir bardagann og sagðist aldrei hafa ætlað sér að meiða Aspinall. Hann lýsti von sinni um að fá tækifæri til að berjast við hann aftur.
Þungavigtardeildin stendur því eftir í óvissu. Aspinall heldur titlinum, en engin niðurstaða fékkst í bardaganum sem átti að skýra stöðuna í toppbaráttunni. UFC hefur ekki staðfest hvort endurtekning verði sett upp, en flest bendir til þess að bardaginn verði bókaður á nýju ári þegar Aspinall hefur jafnað sig að fullu.





