Bardagakapparnir Logi Geirsson og Viktor Gunnarsson frá Mjölni ásamt Gunnari Nelson þjálfara ferðuðust til Króatíu fyrr í mánuðinum þar sem þeir hittu sinn gamla þjálfara, og þjálfara Gunnars, Luka Jelcic og kepptu á MMA móti hjá Croatian MMA Union. Báðir menn unnu gull, Logi barðist þrjá bardaga en Viktor aðeins einn.
Á mótinu var barist í ferköntuðu búri og var barist af fullum krafti, ekki “controlled aggression” eða árasagirni undir stjórn eins og þekkist á MMA æfingamótum hérlendis og víðar.
Logi Geirsson sigraði alla sína þrjá bardaga á uppgjafartaki í fyrstu lotu. Fyrsta bardagann vann hann með flying triangle, en seinni tvo vann hann með rear naked choke “Gunna style” eins og hann kallar það. Viktor vann sinn bardaga með mounted guillotine, einnig í fyrstu lotu, en andstæðingurinn sem hann átti að mæta í úrslitum hlaut meiðsli í fyrri bardaga sínum sem gerði honum ófært um að mæta Viktori.
Logi Geirsson vakti svo sannarlega athygli á mótinu með sínum þremur öruggu sigrum og var valinn besti bardagamaður mótsins í fullorðinsflokki. Hans næsti bardagi verður vonandi og að öllum líkindum titilbardagi hjá Battle Arena 29. nóvember og Viktor vonast eftir tækifærinu á að þreyta frumraun sína sem atvinnumaður á sama kvöldi.

Gunnar Nelson þjálfari var skiljanlega mjög stoltur af sínum mönnum og spurður út í ferðina hafði þetta að segja:
“Það er alltaf gaman að koma til Króatíu, frabær menning hérna, skemmtilegt og gestrisið fólk sem kemur til dyrana eins og það er klætt. Mótið var mjög skemmtilegt, margir frábærir bardagar og mikið talent. Ég er rosalega stoltur af strákunum og þeir mættu og settu tóninn fyrir okkur með fyrstu viðureign og gáfu ekkert eftir. Gjörsamlega flawless hjá þeim báðum og þetta mun réttilega fleyta þeim áfram fullum af sjálfstrausti inní næstu viðureign í nóvember. Spennandi hlutir framundan hjá okkur.”
Viktor og Logi mættu beint úr ferðinni í stúdíóið til Fimmtu Lotunnar og gerðu upp ferðina og mótið ásamt því að ræða um UFC.
Þar kom fram að þeir stefni báðir á næsta Battle Arena viðburð sem haldinn verður í Birmingham 29. nóvember en Mjölnir hafa nú þegar staðfest einn bardaga á kvöldinu. Það verður frumraun Feykis Veigarssonar sem strákarnir hrósuðu einmitt mikið í þættinum.





