Axel Kristinsson er brúnbeltingur í brasilísku jiu-jitsu og einn af yfirþjálfurum Mjölnis. Hann keppti fyrir skömmu á Mjölni Open 10 glímumótinu þar sem hann sigraði sinn flokk, -66kg flokk karla, enn eitt árið.
„Mér fannst þetta bara ganga þokkalega vel. Ég hef oft reynt að klára glímurnar mínar eins fljótt og hægt er, en ákvað að gefa mér tíma í þetta í þetta sinn. Byrja rólega og tryggja mér alltaf stöðu. Ég byrjaði glímurnar allar á mjög svipuðum hreyfingum og tryggði mér takedown og þaðan passaði ég guardið og endaði oftast á bakinu og kláraði þaðan,“ segir Axel um mótið.
Axel er orðinn hálfgerður reynslubolti í glímunni og hefur æft og keppt um árabil. Hefur hann orðið var við miklar framfarir og breytingar í stíl hjá íslenskum BJJ keppendum?
„Mér finnst mörgum fara rosalega fram með hverju mótinu sem líður og samkeppnin alltaf sterkari á hverju ári. Þetta ár vantaði reyndar ýmsa skemmtilega menn í minn flokk sem færðu sig upp eins og Ómar Yamak, Bjarka Ómars og Kristján Helga. Með stílbreytinguna þá hefur hún verið talsverð já. Ég man þegar ég var að byrja að keppa fyrst þá voru flestir að reyna basic judo köst og voru með mjög grófan stíl í gólfinu, en núna eru flestir komnir með gott wrestling og margir púlla bara guard.“
„Ég hef átt við vandamál með keppnisstress síðan ég byrjaði. Það fer þó batnandi með hverju móti en það er aðallega pressan sem ég set á sjálfan mig sem fer með mig. Ég hef náð að koma mér upp einfaldri rútínu allt frá því að fara í bíó kvöldinu áður, hvað ég borða um morguninn og hvernig fötum ég er í, til þess hvernig ég hita upp og fer inn á völlinn, það finnst mér skipta miklu máli. Samt virðist það vera þannig að um leið og ég byrja að glíma þá hverfur það nánast og ég gleymi mér bara.“
Síðastsliðið sumar fór Axel ásamt Þráni Kolbeinssyni til New York að æfa BJJ. Þar æfðu þeir með sumum af bestu glímumönnum heims en var eitthvað sem kom þeim á óvart þar úti hvað varðaði styrkleikann?
„Þetta var alveg frábær reynsla og án efa ein skemmtilegasta ferð sem ég hef farið í. Við æfðum aðallega hjá John Danaher í Renzo Gracie gymminu en hann er mjög sérstakur þjálfari, býr yfir rosalegri þekkingu og er nánast með nýja tækni í hverjum tíma. Mér fannst gaman að sjá hvar við stóðum miðað við brúnu og svörtu beltin þarna úti og það kom mér eiginlega á óvart hversu hár standardinn er á Íslandi, en okkur Þráni gekk almennt bara frekar vel á æfinginum.“
Axel keppti á Evrópumótinu í BJJ í janúar síðastliðnum en mótið þykir verulega sterkt. Hvernig var sú reynsla?
„Ég var frekar sáttur með það mót, og ekki leiðinlegt að enda á palli á fyrsta IBJJF mótinu [IBJJF er stærsta alþjóðlega BJJ sambandið] sem ég hef keppt á. Ég vissi það að flestir myndi reyna að pulla guard á mig þannig ég var búinn að vera vinna sérstaklega í guard passinu mínu því ég vildi ekki festast í sex mínútna ’50/50 sitjandi á rassinum að reyna berimbolo’ glímum. Það gekk eftir og ég passaði guardið í fyrstu tveimur glímunum mínum og endaði á að vinna þær báðar á uppgjafartaki.“
„Í þriðju glímunni notaði ég sömu aðferð og náði að passa að mér fannst nógu lengi til að fá stig en ég fekk bara eitt advantage stig. Ég endaði svo á að fá tvö refsistig fyrir töf og andstæðingurinn minn eitt og því var ég einungis einu refsistigi undir þegar glíman var að klárast (tvö refsistig = eitt advantage) og tók því áhættu og sótti í fótalás en það gekk því miður ekki eftir.“
En hver eru framtíðarplönin hvað varðar BJJ. Sér hann mögulega fyrir sér að taka MMA bardaga í framtíðinni?
„Ég var mjög sáttur að ná að lenda á palli á einu af þremur stærstu IBJJF mótunum en það var aðal markmiðið mitt sem brúnbeltingur. Ég vil einhvern tíman ná að komast á pall á móti af sama kaliberi sem svartbeltingur – að vera einn af þeim bestu!“
„Með MMA þá hef ég aldrei fundið almennilega löngun til að taka MMA bardaga. Hef alltaf dottið aftur í glímuna. En ef ég finn þá löngun einhvern daginn þá tek ég hiklaust bardaga.“
Að lokum vill Axel þakka styrktaraðilunum sínum, Óðinsbúð, Jaco og Lifandi Markaði kærlega fyrir stuðninginn. Við þökkum honum fyrir viðtalið og óskum honum alls hins besta.