Sunday, May 26, 2024
HomeForsíðaVindmyllan Diego Sanchez

Vindmyllan Diego Sanchez

UFC 107: BJ Penn vs Diego Sanchez WeighinDiego Sanchez er einn sérkennilegasti bardagamaður UFC. Sigrar eftir umdeildar dómaraákvarðanir, baráttuandi og vindmylluhögg einkenna þennan undarlega bardagamann.

Diego Sanchez er fyrsti sigurvegari The Ultimate Fighter (TUF). Þar sigraði hann millivigtar útsláttarkeppnina er hann sigraði Kenny Florian eftir tæknilegt rothögg. Síðan þá hefur hann átt farsælan feril í UFC og barist 21 bardaga í samtökunum.

Hann hefur lengi þótt undarlegur fýr og vakti það strax athygli í TUF. Í þáttunum stundaði hann jóga á undarlegum tímapunktum og reyndi til að mynda að draga í sig orku frá þrumustormi. Hann hefur einnig vakið athygli fyrir sérkennilega inngöngu í búrið. Sanchez gengur inn og hrópar stöðugt „YES“ af miklum ákáfa eins og sjá má hér að neðan.

Þegar Sanchez kom fyrst í UFC bar hann viðurnefnið „The Nightmare“. Árið 2011 ákvað hann hins vegar að breyta viðurnefninu úr martröðinni yfir í „The Dream“ þar sem honum fannst martröð vera of neikvætt orð. Fyrir bardaga hans gegn Ross Pearson árið 2014 ákvað hann svo að breyta því aftur í „The Nightmare“.

Þrátt fyrir breytingu á viðurnöfnum hefur gengið brösulega hjá Sanchez á undanförnu. Að margra mati ætti hann að vera á sex bardaga taphrynu þar sem síðustu þrír sigrar hans hafa verið eftir umdeildar dómaraákvarðanir. Sigurinn á Martin Kampmann 2011 var eftir einróma dómaraákvörðun en margir voru á því að Kampmann hefði átt að fá sigurinn dæmdan sér í vil. Þar á eftir tapaði hann fyrir Jake Ellenberger en sigraði svo Takenori Gomi eftir klofna dómaraákvörðun. Aftur var meirihluti fjölmiðlamanna og bardagaaðdáenda á því að Sanchez hafi átt að tapa. Þar á eftir komu tvö réttmæt töp gegn Gilbert Melendez og Myles Jury. Sigur á Ross Pearson eftir klofna dómaraákvörðun var svo enn einn umdeildi sigurinn.

Með smá óheppni hefði Sanchez átt að vera á sex bardaga taphrynu. Hann hefur ekki barist síðan hann „sigraði” Ross Pearson í júlí í fyrra vegna meiðsla en snýr aftur síðar á árinu og þá í nýjum þyngdarflokki.

Diego Sanchez lét nýlega hafa eftir sér að hann ætli hugsanlega í fjaðurvigt (145 pund). Ef það rætist verður það fjórði þyngdarflokkurinn sem hann berst í UFC. Þá mun hann feta í fótspor andstæðing síns úr úrslitarimmu TUF, Kenny Florian, og fara úr millivigt niður í fjaðurvigt.

Diego Sanchez hefur verið á niðurleið undanfarin ár og mun það halda áfram, sama í hvaða þyngdarflokki hann keppir í. Fellutilraunir hans heppnast í aðeins 21% tilvika og étur hann mikið af höggum sjálfur. Hann er einnig þekktur fyrir að kýla mikið út í loftið og er oft á tíðum með verulega slæmt hlutfall högga sem lenda. Tölurnar má sjá í töflunni hér neðar en það sem stendur upp úr eru klárlega viðureignir hans gegn BJ Penn, Ross Pearson, Martin Kampmann og Gilbert Melendez. Í öllum þessum bardögum hafa aðeins 25% högga hans hitt. Athugið að Diego Sanchez sigraði tvo af þessum bardögum.

Versta tölfræðin er þó í titilbardaga hans gegn BJ Penn. Aðeins átta af 108 höggum hans hittu í bardaganum en Penn sigraði eftir tæknilegt rothögg í fimmtu lotu. BJ Penn gjörsigraði Sanchez og átti Martröðin/Draumurinn aldrei séns í meistarann. Sanchez náði aldrei fleiri en tveimur höggum í Penn í hverri lotu.

Dagsetning Andstæðingur Högg sem lenda Prósenta
 7. júní 2014 Ross Pearson 33/134 25%
 15. mars 2014 Myles Jury 37/105 35%
 19. október 2013 Gilbert Melendez 42/176 24%
 3. mars 2013 Takenori Gomi 68/149 46%
 15. febrúar 2012 Jake Ellenberger 63/158 40%
 3. mars 2011 Martin Kampmann 51/202 25%
 12. desember 2009 BJ Penn 8/108 7%

Í síðustu sex bardögum hans hefur Sanchez hitt 294 högg af 924 eða 31,8%. Í hans síðustu þremur hafa aðeins 27% högga hans hitt. Maðurinn er mennsk vindmylla. Diego ‘The Human Windmill’ Sanchez hljómar ekki svo illa.

Þrátt fyrir sína galla hefur Sanchez glatt bardagaaðdáendur í gegnum árin með ótrúlegri hörku og baráttu. Það er farið að styttast í annan endann á bardagaferlinum þrátt fyrir að vera aðeins 33 ára. Sanchez hefur farið í ótalmörg stríð í búrinu og það tekur sinn toll á líkamann. Hans verður þó lengi minnst í UFC fyrir marga skemmtilega bardaga og sem fyrsti sigurvegari TUF.

Vindmyllan að störfum.
Vindmyllan að störfum.
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular