UFC 258 fer fram annað kvöld þar sem þeir Kamaru Usman og Gilbert Burns mætast í aðalbardaga kvöldsins. Hér förum við aðeins yfir bestu og áhugaverðustu bardaga helgarinnar.
Kamaru Usman gegn Gilbert Burns
Þessi ætti að verða mjög áhugaverður þar sem hér eru tveir fyrrum æfingafélagar að mætast. Þeir Usman og Burns þekkja hvorn annan mjög vel og hafa tekið yfir 200 lotur gegn hvor öðrum. Báðir vita hvað getur gerst á laugardaginn og hvar styrkleikar hvors annars liggja. Usman er núna kominn með nýjan þjálfara og spurning hvort hann sýni ný vopn í búrinu. Að sama skapi má velta því fyrir sér hvort Burns geti komið Usman á óvart með vinnu bakvið tjöldin síðustu mánuði. Þessi gæti orðið mjög áhugaverður.
Maycee Barber gegn Alexa Grasso
Mikilvægur bardagi í fluguvigt kvenna. Maycee Barber berst sinn fyrsta bardaga eftir að hafa slitið krossband í tapi gegn Roxanne Modafferi í janúar 2020. Barber er bara 22 ára gömul og stefnir enn á að verða yngsti meistari í sögu UFC. Grasso er 5 árum eldri og með meiri reynslu í UFC en Barber. Grasso vill halda þessu standandi og Barber nota fellurnar svo við ættum að fá klassískan „striker vs. grappler“ bardaga.
Rodolfo Viera gegn Anthony Hernandez
Rodolfo Vieira er einn sá besti sem hefur tekið skrefið úr jiu-jitsu yfir í MMA. Vieira er margfaldur heimsmeistari í BJJ og vann sinn flokk á ADCC árið 2015. Í MMA hefur honum gengið mjög vel en hann hefur klárað alla sjö sigra sína – þar af 6 með uppgjafartaki. Það er ekkert leyndarmál hvað hann vill gera, hann ætlar að taka andstæðinginn niður þar sem fáir standast honum snúninginn. Anthony Hernandez á erfitt verkefni í vændum og þarf að halda þessu standandi.