Gamall óreyndur karlmaður berst sinn fyrsta bardaga á morgun gegn ungum og óreyndum bardagamanni. Bardagi CM Punk og Mickey Gall fer fram á UFC 203 og eru ekki allir spenntir fyrir þessum furðulega bardaga.
Bardagaaðdáendur hafa beðið lengi eftir fyrsta bardaga CM Punk – ekki af því þeir vilja svo mikið sjá hann berjast heldur til þess eins að ljúka þessu af. CM Punk samdi við UFC í lok árs 2014 mörgum til mikillar furðu. Hann vissi ekki í hvaða þyngdarflokki hann myndi berjast í, vissi ekki hvar hann myndi æfa og vissi ekki hvenær hann ætlaði að berjast. Punk hafði áður gert garðinn frægan í fjölbragðaglímunni og er mjög stórt nafn í Bandaríkjunum. Núna, 21 mánuði eftir að hann tilkynnti komu sína í UFC, mun hann loksins berjast.
Þrátt fyrir að veltivigtin telji um 100 bardagamenn þurfti að finna sérstakan andstæðing fyrir Punk því ekki gat hann farið á móti einhverjum með tugi bardaga. Það fann Dana White í þáttunum Lookin’ for a Fight þegar hann sá Mickey Gall berjast.
Mickey Gall er 24 ára strákur úr New Jersey sem hefur æft MMA frá 19 ára aldri. Hann vann alla þrjá áhugamannabardagana sína og hefur unnið báða atvinnubardagana sína (þar af einn í UFC) og er því með talsvert meiri reynslu en CM Punk í búrinu (þó hann sé enginn reynslubolti).
Þessi frumraun CM Punk hefur tekið óskaplega langan tíma enda Punk meiðst tvisvar nokkuð illa. Eftir þennan tíma er þó komin smá spenna í bardagaaðdáendur enda forvitnilegt að sjá hversu vel eða illa hann muni líta út. Við sem horfum reglulega á MMA viljum trúa því að það sé ekki hægt að fara frá núllpunkti og yfir í að verða nægilega góður fyrir UFC á 21 mánuði. Það er einfaldlega ekki hægt nema um yfirburðar íþróttamann eða undrabarn sé að ræða. Það virðist CM Punk ekki vera.
En á þessi 37 ára maður séns? Getur hann unnið Mickey Gall á morgun? Það getur auðvitað allt gerst í MMA það en það sem vinnur með CM Punk fyrir þennan fyrsta bardaga hans er ekkert sérstaklega mikið.
- Enginn sviðsskrekkur: CM Punk er vanur því að koma fram fyrir framan þúsundir áhorfenda. Hann ætti ekki að fá neinn sviðsskrekk í búrinu fyrir framan milljónir sjónvarpsáhorfenda og þúsundir áhorfenda í höllinni.
- Góðir þjálfarar: Hann hefur allan tímann æft hjá Duke Roufus en þar æfa menn eins og Anthony Pettis, Sergio Pettis, Ben Askren og veltivigtarmeistarinn Tyron Woodley. Hann hefur því verið að æfa hjá topp þjálfurum með frábærum bardagamönnum.
Þar með er það upptalið. Það sem vinnur gegn honum er svo talsvert lengri listi.
- Hann er bara búinn að æfa í 21 mánuð: Eins og áður segir þarft þú að vera einhvers konar undrabarn til að vera nægilega góður til að keppa í UFC á svo skömmum tíma (eða keppa í þungavigt). Hann er heldur ekki með neinn grunn úr glímu eða boxi. Hann byrjaði á núllpunkti í öllum bardagaíþróttum.
- Aldrei barist í MMA: Chael Sonnen og fleiri hafa sagt að það sé ólýsanlegt að fara í búr og keppa í MMA. CM Punk hefur aldrei upplifað það áður.
- Hann er hvítt belti í BJJ: CM Punk er bara hvítt belti í brasilískju jiu-jitsu á meðan Mickey Gall er brúnt belti. Gall byrjaði að æfa BJJ þegar hann var 16 ára gamall en Punk byrjaði fyrir um tveimur árum síðan.
- 37 ára gamall: CM Punk er ekkert unglamb og hefur þegar lent í slæmum meiðslum eftir að hann byrjaði í MMA. Punk meiddist á öxl í fyrra og var frá í u.þ.b. þrjá mánuði. Fyrr í ár meiddist hann í baki og þurfti að fara í aðgerð. Þetta er „young man’s game“ eins og einhver sagði.
- Aldrei keppt í bardagaíþrótt á ævi sinni: CM Punk hefur aldrei keppt á glímumóti, aldrei keppt í boxi, aldrei keppt í Muay Thai, aldrei keppt í Karate, aldrei keppt í Júdó og svo mætti lengi telja. Hann hefur aldrei keppt í bardagaíþrótt áður. Hann hefur aldrei upplifað það að vera undir á stigum í keppni, örþreyttur, adrenalínið á fullu og skammur tími eftir. Fyrsta glímumótið t.d. er sjaldnast farsælt hjá flestum glímuiðkendum og erfitt að ímynda sér að MMA bardagi verði eitthvað betri.
- Aldrei skorið niður áður: Sagan segir að niðurskurðurinn sé ekki auðveldur fyrir CM Punk enda hefur hann aldrei áður þurft að skera niður fyrir keppni. Hann tók ekki prufuskurð eins og margir ákveða að gera og er því að upplifa margt í fyrsta sinn sem flestir bardagamenn hafa upplifað ótal sinnum áður en þeir berjast í UFC.
- Mickey Gall lítur út fyrir að vera mjög efnilegur bardagamaður: Gall er kannski ekki með mikla reynslu en hann lítur út fyrir að vera ansi efnilegur bardagamaður. Hann virkaði afslappaður og rólegur fyrir sinn fyrsta UFC bardaga eins og hann hefði aldrei gert neitt annað. Hann er með sjálfstraustið í botni og hefur klárað alla bardaga sína. Glíma hans við Gordon Ryan vakti athygli en Ryan er einn af færustu glímumönnum heims og stóð Gall vel í honum.
Hvernig sem bardaginn fer á morgun er ekki hægt annað en að hrósa Punk fyrir að gera þetta. Hann skortir ekki peninga og er einungis að gera þetta til að skora á sjálfan sig. Spurningin er hins vegar hvort UFC ætti að vera vettvangur fyrir menn eins og CM Punk til að upplifa gamla drauma.
Það er þó ljóst að það er spenna og áhugi fyrir bardaganum. Hversu lélegur verður hann? Mun hann lifa af 1. lotuna? Er hann jafn harður af sér og sagt er? Er hann með meira en „punchers chance“?
Allt þetta fáum við að vita á morgun þegar UFC 203 fer fram. Bardaginn er þriðji síðasti bardagi kvöldsins og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Bein útsending hefst kl 2.