spot_img
Thursday, December 19, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentCyborg sögð hafa fallið á lyfjaprófi

Cyborg sögð hafa fallið á lyfjaprófi

Cris ‘Cyborg’ Justino var fyrr í kvöld sögð hafa fallið á lyfjaprófi. USADA, sem sér um öll lyfjamál UFC, tók Cyborg í lyfjapróf þann 5. desember og fannst eitthvað gruggugt í lyfsýninu.

Ekki er vitað hvert efnið var en prófið fór fram utan keppnis. Cyborg er ein af þeim sem hefur hvað oftast verið lyfjaprófuð í UFC en þetta var í fyrsta sinn sem Cyborg var tekin í lyfjapróf án þess að hún sé með bardaga framundan (utan keppnis).

Þetta lítur alls ekki vel út fyrir Cyborg enda féll hún á lyfjaprófi árið 2011 fyrir stera. Síðan þá hefur hún haft mikið fyrir því að bæta ímynd sína og hefur það tekist nokkuð vel að undanförnu.

Cyborg sjálf er þó róleg yfir þessu öllu saman og segir að ólöglega efnið sem fannst í lyfjaprófinu sé lyf sem hún er á til að hjálpa sér að jafna sig eftir niðurskurðinn erfiða í september. Cyborg segist enn vera að jafna sig eftir að hafa skorið niður í 140 pund til að berjast við Linu Lansberg í hennar öðrum UFC bardaga.

Cyborg vildi ekki greina frá hvert efnið væri en sendi frá sér yfirlýsingu í kvöld. „Það sem ég get sagt núna er að ég er að tala við lækninn minn og er róleg yfir þessu. Allir vita að ég hef verið veik og er að jafna mig eftir niðurskurðinn fyrir minn síðasta bardaga. Þeir [USADA] eru að tala við lækninn minn til að leysa þetta á sem bestan máta,“ sagði Cyborg við MMA Fighting.

„Þetta er ekkert slæmt. Ég er í lyfjameðferð.“

Cyborg hefur lengi barist fyrir því að fá fjaðurvigt kvenna í UFC. Þegar bardagasamtökin buðu henni svo titilbardaga í fjaðurvigtinni neitaði hún boðinu þar sem hún væri enn að jafna sig eftir niðurskurðinn síðan hún barðist í september. Hún vildi meiri tíma til að jafna sig og munu þær Holly Holm og Germaine de Randamie berjast í fyrsta titilbardaganum í fjaðurvigt kvenna.

Kærasti Cyborg skrifaði póst á The Underground spjallborðinu þar sem hann útskýrði þetta nánar. „Þetta eru ekki sterar, hún er með lyfseðil fyrir þessu en þetta er hluti af meðferðinni eftir erfiðan niðurskurð. Við höfum vitað af þessu í nokkra daga og læknirinn hennar hefur verið í beinu sambandi við USADA og afhent öll nauðsynleg gögn um hvers vegna hún þarf þetta lyf.“

Þetta gæti ekki komið á verri tíma fyrir Cyborg og verður erfitt fyrir hana að hreinsa sterastimpilinn af sér aftur eftir þetta. USADA mun rannsaka málið og ef afsökun Cyborg er góð og gild ætti hún ekki að fá langt bann.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular