Dana White, forseti UFC, er ekki á því að Conor McGregor verði meðeigandi að UFC. Conor hefur lengi sóst eftir því að fá eignarhlut í UFC.
Conor McGregor tilkynnti í síðustu viku að hann væri hættur í MMA. Lengi var talið að Conor myndi mæta Donald Cerrone í sumar en Cerrone var bókaður í bardaga gegn Al Iaquinta. Talið var að UFC ætlaði sér að hafa Conor og Cerrone í næststærsta bardaga kvöldsins en Conor var ekki tilbúinn til þess nema hann fengi hlut í UFC. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Conor hefur óskað eftir að gerast meðeigandi en eftir sigur hans gegn Eddie Alvarez lagði hann fram sömu bón.
Dana White er alfarið á móti því að Conor fái hlut í UFC. „Ef þið sjáið körfuboltann, Michael Jordan átti aldrei hlut í deildinni og svo mætti lengi telja. Er Conor verðmætur fyrir UFC? Svo sannarlega. En þetta er erfitt, en ég held að það séu fleiri leiðir til að gera Conor hamingjusaman,“ sagði Dana White við KLAS.
Conor er launahæsti bardagamaður í sögu UFC en ekki eru allir sem taka ákvörðun hans um að hætta alvarlega. Margir telja að þetta sé samningataktík hjá Conor enda hefur hann áður sagst vera hættur án þess að standa við það.
Léttvigtin mun halda áfram að lifa góðu lífi án Conor. Khabib Nurmagomedov er ríkjandi meistari en hann er fjarri góðu gamni vegna keppnisbanns. Þann 13. apríl munu þeir Max Holloway og Dustin Poirier berjast um bráðabirgðartitil í léttvigtinni vegna fjarveru Khabib.
„UFC er að fara að vera til staðar lengur en Conor McGregor, lengur en Dana White og lengur en nokkur annar,“ sagði Dana að lokum.