Dana White, forseti UFC, sagði í gær að Tony Ferguson muni mæta Kevin Lee um bráðabirgðarbeltið í léttvigt. Ekki er vitað hvenær bardaginn muni fara fram en UFC 216 þann 7. október hefur verið nefnt til sögunnar.
Tony Ferguson hefur unnið níu bardaga í röð og átti að mæta Khabib Nurmagomedov á UFC 209 í mars. Aðeins sólarhringi fyrir bardagann veiktist Khabib og féll bardaginn niður. Hann hefur því ekkert barist síðan í nóvember 2016 þegar hann sigraði Rafael dos Anjos. Síðast sáum við Kevin Lee sigra Michael Chiesa í júní en hann hefur unnið fimm bardaga í röð í léttvigt UFC.
UFC 216 fer fram í Las Vegas en bardagi Lee og Ferguson gæti verið aðalbardagi kvöldsins. Ríkjandi léttvigtarmeistari UFC, Conor McGregor, er auðvitað upptekinn við að berjast við Floyd Mayweather og óljóst hvenær hann muni verja léttvigtartitil sinn aftur. UFC ætlar því að krýna bráðabirgðarmeistara á meðan.
Eftir Dana Whites Tuesday’s Contender Series í gær sagði Dana að þeir Lee og Ferguson muni mætast.
— Brett Okamoto (@bokamotoESPN) August 16, 2017
Einhvers staðar í Rússlandi er Khabib Nurmagomedov eflaust mjög ósáttur. Þeir Khabib og Ferguson hafa þrisvar átt að mætast en aldrei hefur þeim tekist að berjast. Á undanförnum vikum hafa þeir skipst á orðum á samfélagsmiðlum og benti allt til þess að UFC myndi enn einu sinni reyna að setja bardaga þeirra saman.
Dana White sagði hins vegar að Khabib væri ekki tilbúinn og hefði nýlega farið í aðgerð. Hann leit þó út fyrir að vera við fína heilsu í gær miðað við þetta myndskeið.