UFC 205 er gjöf sem heldur áfram að gefa. Í morgun var það staðfest að Chris Weidman og Yoel Romero muni berjast á UFC 205 í New York.
12 bardagar hafa nú verið staðfestir á þetta risa bardagakvöld í New York í nóvember. Seint í gærkvöldi staðfesti Dana White að Conor McGregor og Eddie Alvarez munu berjast í aðalbardaga kvöldsins. Í morgun bætti Dana White svo enn einum bardaganum við þegar hann tilkynnti að Yoel Romero og Chris Weidman munu mætast á UFC 205.
Bardagi Romero og Weidman hefur verið lengi í smíðum en sá bandaríski var sagður hafa viljað fá meira greitt en honum var upphaflega boðið fyrir bardagann. Hann virðist hafa náð sínu fram og verður bardaginn að öllum líkindum á aðalhluta bardagakvöldsins.
Chris Weidman er New York maður í húð og hár og átti sinn þátt í því að fá MMA lögleitt í heimaríkinu sínu. Weidman er auðvitað fyrrum millivigtarmeistarinn en hann hefur ekkert barist síðan hann tapaði beltinu til Luke Rockhold í desember.
Yoel Romero hefur heldur ekkert barist síðan í desember en þá sigraði hann Ronaldo ‘Jacare’ Souza. Romero féll á lyfjaprófi en hélt því fram að ólöglegu efnin hefðu fundist í fæðubótarefni og fékk því aðeins sex mánaða bann.
UFC 205 er sennilega fullskipað en svo gæti farið að Khabib Nurmagomedov og Michael Johnson bætist við. Bardagakvöldið fer fram í Madison Square Garden þann 12. nóvember og lítur svona út (bardagarnir þurfa ekki endilega að vera í þessari röð).
Aðalhluti bardagakvöldsins:
Titilbardagi í léttvigt: Eddie Alvarez gegn Conor McGregor
Titilbardagi í veltivigt: Tyron Woodley gegn Stephen Thompson
Titilbardagi í strávigt kvenna: Joanna Jedrzejczyk gegn Karolina Kowalkiewcz
Veltivigt: Kelvin Gastelum gegn Donald Cerrone
Millivigt: Chris Weidman gegn Yoel Romero
Upphitunarbardagar:
Fjaðurvigt: Frankie Edgar gegn Jeremy Stephens
Bantamvigt kvenna: Miesha Tate gegn Raquel Pennington
Millivigt: Tim Kennedy gegn Rashad Evans
Veltivigt: Lyman Good gegn Belal Muhammad
Léttvigt: Jim Miller gegn Thiago Alves
Millivigt: Rafael Natal gegn Tim Boetsch
Bantamvigt kvenna: Liz Carmouche gegn Katlyn Chookagian