Darren Till ætlar upp í millivigt og gætu dagar hans í veltivigt verið taldir. Till mætir Kelvin Gastelum í nóvember.
Darren Till hefur lengi íhugað að fara upp í millivigt. Nú virðist hann loksins vera að taka skrefið og mætir hann Kelvin Gastelum á UFC 244 í nóvember en bardagakvöldið fer fram í Madison Square Garden.
Till hefur tapað tveimur bardögum í röð og verið kláraður í báðum bardögum. Till fékk titilbardaga gegn Tyron Woodley þar sem hann var kláraður með hengingu og var síðan rotaður af Jorge Masvidal í London í mars.
Kelvin Gastelum hefur verið frábær síðan hann fór upp í millivigt. Gastelum barðist um bráðabirgðartitilinn í apríl þar sem hann tapaði fyrir Israel Adesanya í einum besta bardaga ársins. Till fær því erfiðan bardaga í frumraun sinni í millivigt.
Gastelum var sjálfur í veltivigt lengi vel en mistókst nokkrum sinnum að ná vigt. Niðurskurðurinn fyrir Darren Till í veltivigt hefur alltaf verið erfiður og verður áhugavert að sjá hann í nýjum flokki.
UFC 244 fer fram þann 2. nóvember en bardagakvöldið á að vera stórt. Talið er að þeir Colby Covington og Kamaru Usman mætist í aðalbardaga kvöldsins.