spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentDemetrious Johnson mjög ósáttur - Dana White hótar að leggja fluguvigtina niður

Demetrious Johnson mjög ósáttur – Dana White hótar að leggja fluguvigtina niður

Demetrious JohnsonDemetrious Johnson er mjög ósáttur við meðhöndlun UFC á sér undanfarnar vikur. UFC vill að Johnson taki bardaga gegn T.J. Dillashaw en meistarinn er ekki á sama máli.

Fluguvigtarmeistarinn Demetrious Johnson sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem hann lýsti yfir óánægju sinni með vinnubrögð UFC. Hann hafi áður verið ósáttur en haldið því fyrir sjálfan sig til að vera fyrirmyndar starfsmaður. Nú er hann hins vegar búinn að fá nóg.

UFC bauð Johnson að taka bardaga gegn Ray Borg seint í sumar. Johnson samþykkti bardagann en með sigri myndi hann bæta met Anderson Silva yfir flestar titilvarnir í sögu UFC. Dana White, forseti UFC, tilkynnti Johnson hins vegar að hann myndi mæta T.J. Dillashaw. Johnson vildi aftur á móti ekki samþykkja það og útskýrði það í yfirlýsingunni.

„Í fyrsta lagi hefur TJ aldrei barist í fluguvigt og er ólíklegt að hann nái þyngd sem gerir það að verkum að ég gæti ekki bætt metið. Í öðru lagi hafa þeir tjáð mér að bardagi milli mín og Cody Garbrandt myndi ekki selja vel þannig að bardagi gegn TJ myndi ekki gefa vel í aðra hönd heldur. Í þriðja lagi er TJ ekki í fluguvigt og er ekki meistari í öðrum þyngdarflokki og var rotaður af manni sem ég vann tvisvar,“ sagði Johnson í yfirlýsingunni.

Dana White tók ekki vel í ástæður Johnson og sagði að hann myndi berjast við Dillashaw og að Johnson myndi ekki hafa neitt um það að segja. „Dana hélt áfram og sagði að ef ég tæki ekki bardagann gegn TJ myndi hann leggja niður fluguvigtina. Hann sagði að þetta væri fyrir TJ og að ég væri að taka tækifæri af honum.“

Þá sagði Johnson að UFC hafi neitað að gefa sér hluta af Pay Per View sölunni í hans næsta bardaga og öllum bardögum hans í framtíðinni í UFC. Dana White og Sean Shelby (sá sem sér um að raða öllum bardögunum í UFC) tjáðu Johnson að þeir hafi engan áhuga á að markaðssetja Johnson og þessa minni þyngdarflokka.

Þrátt fyrir rökstuðning Johnson hefur Dana White reynt að setja pressu á Johnson að samþykkja bardagann gegn Dillashaw í fjölmiðlum. „Dana hefur sagt í viðtölum að það sé algjört brjálæði að ég vilji ekki taka bardagann gegn TJ og að hann ráði bardögunum en ekki ég. Hann reynir að láta líta út eins og ég sé hræddur við TJ Dillashaw eða sé að reyna að forðast hann.“

Yfirlýsingin er afar áhugaverð en hana má lesa í heild sinni á vef MMA Fighting hér. Sú staðreynd að Dana White hóti því að leggja niður fluguvigtina lítur ekki vel út fyrir bardagasamtökin. Dana White hefur ekki tjáð sig um yfirlýsingu Johnson.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular