Reykjavík MMA hélt út til Bretlands um helgina í eina stærstu hópferð í sögu klúbbsins. Reykjavík MMA áttu fyrir stafni fimm bardaga á Caged Steel 39 í Doncaster, þeirra heimabæ í Bretlandi, og svo 30 manna Interclub-mót í Manchester morguninn eftir. Ferðin heppnaðist hriklega vel og koma Íslendingarnir heim með 4 sigra frá Caged Steel og reyndan æfingahóp sem fékk að spreyta sig í búrinu á erlendri grundu undir öruggari reglum en tíðkast í áhugamannabardögum.
Eitt tap, fjórir sigrar og algjör yfirtaka
Caged Steel var að sjálfsögðu sýnt í Mini Garðinum, heimavelli bardagaíþrótta, á laugardaginn var. Þar steig inn í búrið mjög fjölbreytt flóra keppenda frá Íslandi og má þá helst nefna Heklu Friðriksdóttur sem er eini keppandinn á Íslandi í kvennaflokki, Ísfirðinginn og yngsta MMA-keppandann í áhugamannaflokki í sögunni Ari Biering og Úkraínumennirnir tveir sem flúðu landið sitt til að elta MMA-drauminn. Öll sóttu þau sigur í sínum viðureignum en það var Haraldur Arnarson sem þurfti að býta í það súra og sætta sig við tap gegn Kunle Lawal í lokaviðureign Caged Steel kvöldsins.
Það voru líklega um það bil 50 íslenskir áhorfendur í salnum sem létu vel í sér heyra og þögguðu niður í öllum Bretunum þegar þeir reyndu að hvetja sína menn til dáða.
Íslenski hópurinn hélt svo út til Manchester um morguninn þar sem áhorfendur laugardagsins urðu keppendur dagsins og fengu tækifæri til að losa um spennuna sem hafði myndast kvöldið áður og sótt sér reynslu í búrinu. Litla veislan fyrir unga MMA-iðkendur sem það var. Uppleggið á mótinu er að menn fái reynslu í því að stíga inn í búrið undir Controlled Aggression reglum en ef satt skal segja flaug það út um gluggann ansi hratt, fyrir utan í viðureignum með mjög unga keppendur.
Þeir sem taka þátt á Interclub eru paraðir við andstæðing í svipaðri þyngd og á sama reynslustigi og berjast tveggja mínútna lotur. Jafnframt mega þátttakendur berjast eins marga bardaga og þeir hafa þol í.
Hekla María Friðriksdóttir afgreiddi Paulette Spencer brosandi
Það var líklega enginn í hópnum jafn spenntur og brosmildur og Hekla var fyrir bardagann sinn. Hún hefur þurft að bíða lengi eftir að fá bardaga og leitað um víðan völl. En þarna var stundin runnin upp og hamingjan leyndi sér ekki hjá Heklu, enda engin ástæða til.
Hekla byrjaði bardagann sterkt og uppskar mikið standandi á fótunum. Hún lenti spörkunum sínum nánast að vild en Hekla skaut á endanum í fellu og tók Paulette í gólfið. Hekla náði toppstöðu í mount og þar lét hún höggin dynja áður en hún setti svo upp armbarinn sem kláraði bardagann á endanum með rúmlega 20 sekúndur eftir á klukkunni í fyrstu lotu. Heilt yfir var þetta mjög dóminerandi frammistaða og verður mjög spennandi að sjá Heklu aftur í búrinu vonandi á þessu ári.
Herashenko Ernest kláraði bardagann sinn á 48 sekúndum
Reykjavík MMA hefur nýlega tekið að sér tvo stráka frá Úkraínu sem ganga til liðs félagsins með mikla þekkingu og getu. Herashckenko Ernest er annar þessara tveggja og var hann að berjast sinn fyrsta MMA bardaga. Herashckenko Ernest mætti heimamanninum Will Bingham og voru þjálfarar, áhorfendur og æfingafélagar spenntir að sjá hvernig þetta mikla efni myndi standa sig í búrinu.
Ernest byrjaði bardagann með öryggið uppmálað og tók yfir bardagann standandi á fyrstu mínútu og reyndi til dæmis snúningsspark í höfuðið á Bingham snemma í lotunni sem var nálægt því að lenda. Eftir að hafa þreyft fyrir sér í striking skaut Ernest í vel heppnaða fellutilraun og lenti í guardinu hans Bingham. Ernest ákvað fljótt að það væri auðveldara að standa yfir Bingham og láta höggin dynja yfir hann í standandi stöðu frekar en að stjórna honum í gólfinu. Höggin voru mjög kraftmikil og hittu vel. Will Bingham var fljótur að leggjast undir skelina og gat dómarinn ekki annað stöðvað bardagann.
Ari Biering braut blað í bardagasögunni
Ísfirðingurinn ungi Ari Biering var að undirbúa sig fyrir Interclub-mótið í Manchester þegar hann fékk skyndilega grænt ljós frá þjálfurunum sínum um að keppa á Caged Steel í staðinn. Ari greip tækifæragæsina samstundis og setti stefnuna á bardaga gegn Ash Shemeld. Ari er yngsti mma-keppandi Íslandssögunnar og jafnframt sá yngsti til að landa sigri.
Ara tókst ekki að dóminera eða standa jafnvígur Shemeld í striking og leitaði því í glímuna sína. Ari er verulega hæfileikaríkur glímumaður miðað við aldur og tókst honum vel til gegn Shemeld. Ari tók Shemeld niður í fyrstu lotu og var greinilegt að hann hafði yfirburði þar. Shemeld reyndi mjög örvæntingarfullt að ná Ara í guillotine á bakinu en allt kom fyrir ekki hjá Bretanum.
Í annarri lotu lendir Ari undir á gólfinu og setur upp Triangle Choke. Shemeld bregst við með því að lyfta Ara upp og skella honum aftur í gólfið. Ari lét það ekki stoppa sig og setti upp Triangle Choke aftur. Í þetta skiptið slapp Shemeld ekki og sofnaði læstur inni í fótunum hans Ara.
Vitalii Korshak setti upp glímusýningu
Vitalii er annar hluti úkraínska tvíeykisins sem æfir nú hjá Reykjavík MMA og eltir drauminn sinn um að berjast á hæsta stigi í sportinu. Vitalii mætti heimamanninum Laurence Charnock, en sá átti einstaklega erfiðan dag á skrifstofunni.
Vitalli er hriklega efnilegur glímumaður og býr undir virkilega vel tímasettum fellutilraunum. En Charnock var aldrei líklegur til þess að sjá við þessu vopni í bardaganum. Allir laxveiðimenn landsins yrðu stoltir af Vitalli fyrir frammistöðuna sína í búrinu en honum tókst einstaklega vel að krækja í Harnock og þreyta hann allan bardagann. Eftir fyrstu lotu leit Charnock út fyrir að hafa hlaupið maraþon á meðan Vitalii var rétt að hitna.
Bardaginn fór allar þrjár loturnar og má með sanni segja að Vitalii hafi unnið hverja einustu sekúndu.
Þolið sveik Harald í löngum bardaga á atvinnumannastigi
Halli mætti að lokum Kunle Lawal í lokabardaga kvöldsins. Kunle er efnilegur bardagamaður sem er samningsbundinn við PFL-Europe en fékk leyfi til að taka bardagann við Halla á meðan hann bíður eftir að þreyta frumraun sína fyrir þetta risastóra bardagasamband sem PFL er.
Bardaginn byrjaði vel fyrir Halla sem tók sér smá tíma til að þreifa fyrir sér gegn Kunle og koma fótahreyfingunum sínum í gang. Þeir voru jafnvígir standandi en Kunle var duglegri að nýta „dauðan tíma“ til að pikka í Halla með nokkuð vel tímasettum spörkum í lappirnar á honum. Kunle átti einnig frumkvæðið að því að keyra Halla upp að búrinu og fara í clinch-stöðuna og bæta við auka vídd í bardagann.
Þolið virtist svo svíkja Halla í annarri lotu en hann var nokkuð ferskur þegar hann kláraði fyrstu lotu en orkan virtist hverfa fljótt þegar önnur lota byrjaði. Kunle var sannfærandi í lotunni en Halli vann sér inn virðingu undir lok lotunnar þegar hann byrjaði að boxa meira við Kunle. Það nýttist honum svo áfram í þriðju lotu og var Halli líklegri af þeim tveimur til þess að ná að klára bardagann en Kunle gerði vel í að hreyfa sig og pikka í Halla statt og stöðugt.
Dómararnir gáfu að lokum sigurinn til Kunle. Halli var að sjálfsögðu svekktur að hafa ekki tekist að loka kvöldinu eins og hann hafði séð fyrir sér.
Þreyttir blaðamenn gerðu upp rosalegar bardagahelgar í hlaðvarpi MMA Frétta þar sem farið er yfir þrenn bardagakvöld.