UFC ætlaði að halda bardagakvöld í London um næstu helgi. UFC hefur ákveðið að færa bardagakvöldið til Bandaríkjanna vegna kórónaveirunnar.
Kórónaveiran skekur nú heimsbyggðina og hafa flestar íþróttadeildir heims frestað sínum viðburðum. Enska deildin, Ítalska deildin, Spænska deildin, Meistaradeildin, NBA, NHL, MLB, NASCAR, PGA mótaröðin, Bellator og fleiri deildir hafa frestað öllum sínum viðburðum vegna veirunnar. UFC þrjóskast samt áfram við að halda sína viðburði.
Þeir Tyron Woodley og Leon Edwards eiga að mætast í aðalbardaga kvöldsins á UFC bardagakvöldinu í London. Í gær var sett ferðabann á Bretlandseyjar en ferðabann Donald Trump hafði átt við alla Evrópu fyrir utan Bretlandseyjar.
UFC færði tvo viðburði sem áttu að fara fram í Columbus í Ohio (28. mars) og Portland í Oregon (11. apríl) til Las Vegas. Nú hefur íþróttasamband Nevada fylkis (NAC) bannað alla bardaga í ríkinu. Las Vegas er því ekki lengur möguleiki og ætlar UFC því enn á ný að finna nýjan vettvang fyrir bardagana.
„Hlutirnir breytast á hverjum klukkutíma. Í morgun var tilkynnt ferðabann fyrir Bretland og getum við því ekki haldið bardagakvöldið í London. Við erum að vinna í að finna nýja staðsetningu, líklegast í Bandaríkjunum,“ sagði Dana White, forseti UFC.
„Eins og staðan er núna geta bardagar ekki átt sér stað í Apex [æfingaaðstöðu UFC] í Las Vegas. Við erum því að finna nýjan stað en bardagarnir munu fara fram. Við munum ekki stoppa.“
UFC 249 þar sem Khabib Nurmagomedov og Tony Ferguson mætast mun ekki fara fram í New York. Samkomur sem telja meira en 500 manns eru bannaðar í New York en UFC er einnig að leita að nýjum stað fyrir bardagakvöldið.
Dana var harður á því að UFC 249 muni fara fram. „Við vorum með tvær mismunandi hallir til athugunar fyrir bardagann, þar á meðal í Nevada. Núna verða engir viðburðir í Nevada en við erum að skoða nýjan stað. Vonandi verð ég með tvo valkosti á sunnudaginn. Bardaginn mun fara fram. Ekki hafa áhyggjur, Khabib og Tony munu mætast.“
„Bardagarnir munu fara fram nema landið lokist algjörlega og fólk megi hreinlega ekki yfirgefa húsið sitt. Við höldum áfram. Bardagarnir fara fram. Við finnum vettvang og græjum þetta. Það eina sem mun stoppa okkur er algjört bann frá ríkisstjórninni og allir læstir inni heima.“
Þetta eru fordæmalausir tímar en UFC er ekki að fylgja sömu línu og aðrar íþróttadeildir.