Darren Till er heldur betur búinn að koma sér í sviðsljósið eftir frábæra frammistöðu gegn Donald Cerrone um helgina. Cerrone var með engar afsakanir eftir bardagann og hrósaði Till.
Donald Cerrone mætti Darren Till í aðalbardaga kvöldsins á UFC bardagakvöldinu í Gdansk í Póllandi um helgina. Darren Till var fyrir bardagann tiltölulega óþekktur enda bara með fjóra bardaga að baki í UFC. Till átti hins vegar frábæra frammistöðu þegar hann kláraði Cerrone með tæknilegu rothöggi í 1. lotu.
Þegar bardaginn var fyrst staðfestur viðurkenndi Cerrone að hann hefði aldrei heyrt um Darren Till. Cerrone tók það þó skýrt fram að hann hafi alls ekki vanmetið Till fyrir bardagann.
„Frábær frammistað hjá Darren Till. Óhætt að fullyrða að hann hafi mölbrotið nefið mitt!! Ég hef aldrei komið með afsakanir og mun aldrei gera það. Þú varst með frábæra leikáætlun og framkvæmdir leikáætlunina fullkomlega. Ég vanmat þig ekki eða tók þig léttúðlega. Til hamingju aftur,“ sagði Cerrone á Instagram eftir bardagann.
Þetta var þriðja tap Cerrone í röð en tvö af þessum töpum voru eftir rothögg. Hinn 34 ára Cerrone hafði unnið fjóra bardaga í röð og sjaldan litið jafn vel út áður en kom að tapinu gegn Jorge Masvidal í janúar. Óhætt að segja að árið 2017 hafi verið eitt versta ár ferilsins hjá Cerrone.