spot_img
Thursday, November 21, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentEr Ilia Topuria að ógna Alex Pereira, afhverju Shaun Strickland ætti að...

Er Ilia Topuria að ógna Alex Pereira, afhverju Shaun Strickland ætti að hringja í Dana White og fleiri hugleiðingar eftir UFC 308

5. Shara Magomedov heldur áfram að vekja lukku

Shara Magomedov sigraði Armen Petrosyan með spinning vinstri olnboga og heldur áhugafólki um blandaðar bardagalistir á vagninum. Magomedov sér aðeins úr einu auga og eru engin fylki í Bandaríkjunum sem leyfa honum að berjast. Ef Magomedov heldur áfram að rota menn í UFC fer að styttast í titilbardaga og þá er spurning hvort eitthvað fylki ríði á vaðið og leyfi honum að berjast. Magomedov hefur sjálfur gefið það út að hann stefni á titil og að Michael Bisping sé ein af hans fyrirmyndum en Bisping varð millivigtarmeistari í UFC eftir að hafa blindast á öðru auganu.

4. UFC getur ekki neitað Magomed Ankalaev um titilskot endalaust

Magomed Ankalaev heldur áfram sinni sigurgöngu í UFC og sigraði Aleksandar Rakic síðastliðið laugardagskvöld með einróma dómaraákvörðun. Magomed Ankalaev hefur lengi verið einn af fremstu mönnum í léttþungavigtinni en einhvern veginn er alltaf litið fram hjá honum þegar UFC velur dansfélaga fyrir meistarann. Það er löngu kominn tími til að gefa Ankalaev tækifærið og eru eflaust margir UFC-aðdáendur sem myndu vilja fá að sjá Alex Pereira keppa á móti jafn vel rúnuðum bardagamanni og Ankalaev.

3. Khamzat Chimaev gæti hoppað fram fyrir röðina

Khamzat Chimaev átti stórbrotna frammistöðu þegar hann gjörsigraði Robert Whittaker en Robert hefur verið einn besti millivigtarbardagamaður UFC árum saman, var millivigtarmeistarinn og er enn þá á besta aldri. Flestir bjuggust við nokkuð jöfnum bardaga en Khamzat vó í gegnum Robert og kláraði í fyrstu lotu. Fyrir bardagann var nokkuð viðurkennt að Shaun Strickland ætti næsta færi á að titilbardaga gegn Dricus Du Plessis en MMA-samfélagið er ekki jafn spennt fyrir þeim bardaga og var fyrir nokkrum vikum og eftir þessa frammistöðu er erfitt að neita Khamzat um það sem hann vill.

2. Max Holloway hittir á vegg

Max Holloway hefur verið stórkostlegur í búrinu allt frá því að hann tapaði fyrir Alexander Volkanovski árið 2022. Max hafði fyrir bardagann gegn Ilia Topuria aldrei verið sleginn niður og bjuggust flestir við jöfnum og spennandi bardaga. Margir töldu Max með of gott þol og með of góða höku til að Topuria gæti komið honum í vandræði. Annað kom á daginn og Topuria steinrotaði Max í þriðju lotu sem var ákveðið áfall fyrir MMA-samfélagið enda erfitt að finna vinsælli bardagamann en Max Holloway. Það er því loksins búið að sýna fram á að hakan á Max Holloway sé mannleg og ákveðin ofurmennisára sem hreinsaðist af Max eftir rothöggið. Max segir niðurstöðu bardagans ekki vera neina jarðarför fyrir sig og hefur gefið í skyn að hann gæti fært sig varanlega í léttvigtina en Max leit ekki vel út í aðdraganda bardagans og þótti hann fölur og þreytulegur alla bardagavikuna.

1. Er Ilia Topuria bardagamaður ársins 2024 ?

Á hverju ári velur UFC bardagamann ársins og á hverju ári eru vangaveltur allt árið hver eigi það skilið og eftir valið er almennt rifist um hvort að sá sem sigrar hafi átt það skilið. Í ár verður erfitt að neita Ilia Topuria um að minnsta kosti tilnefningu til bardagamanns ársins en það er líklega tveggja til þriggja hesta hlaup. Hinn bardagamaðurinn sem er einnig mjög líklegur er Alex Pereira en hann varði léttþungavigtartitilinn þrisvar sinnum á 175 dögum sem er met í UFC. Fyrir UFC 308 hefði enginn tekið annað í mál en að Alex Pereira verði krýndur bardagamaður ársins 2024 og margir hefðu ekki mótmælt þó verðlaunin hefðu verið veitt honum eftir bardagann gegn Khalil Rountree í byrjun október. Það er hins vegar ekki hægt að líta algerlega fram hjá Ilia Topuria núna, hann sigraði goðsögn í fjaðurvigtinni með rothöggi í febrúar þegar hann sigraði Alexander Volkanovski og rotar svo manninn sem enginn hefur getað slegið niður um síðustu helgi. Það verður í það minnsta spennandii að sjá hvor þeirra tekur titilinn bardagamaður ársins hjá UFC 2024 og erfitt að segja að annar hvor þeirra eigi það ekki skilið.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular