Floyd Mayweather er að fara að mæta Tenshin Nasukawa á Rizin 14 á gamlárskvöldi í Japan. Þessi tilkynning kom flatt upp á bardagaaðdáendur en ekki er vitað hvers konar bardaga er um að ræða.
Mánudagsmorgun í Japan hélt Rizin blaðamannafund þar sem fram kom að Floyd Mayweather myndi stíga í hringinn gegn hinum tvítuga Tenshin Nasukawa þann 31. desember. Rizin eru japönsk bardagasamtök en forseti Rizin, Nobuyuki Sakakibara, var einn af stofnendum PRIDE.
Nasukawa er 27-0 í sparkboxi og 4-0 í MMA. Hann er afar fær í sparkboxi og ein helsta stjarna Rizin í Japan. Nasukawa barðist síðast við Kyoji Horiguchi í sparkbox bardaga þar sem hann fór með sigur af hólmi.
Á blaðamannafundinum í morgun sagðist Mayweather vera spenntur fyrir því að fara til Japan og kynna bardagamenn Money Team þar í landi. Mayweather stefnir á að halda samstarfi sínu við Rizin áfram eftir bardagann.
Á blaðamannafundinum kom ekki fram hvers konar bardagi um væri að ræða. Sakakibara gat aðeins sagt að bardaginn yrði undir „sérstökum reglum“ en gat ekki sagt hvort um væri að ræða box, sparkbox eða MMA. Þá er ekki vitað í hvaða þyngdarflokki bardaginn mun fara fram í.