Segjum sem svo að þú sért að keppa þinn fyrsta UFC bardaga. Þú hefur beðið lengi eftir þessu, búinn að vinna þig upp í UFC í gegnum minni bardagasamtökin og loksins ertu kominn þar sem þú hefur stefnt að svo lengi. Andstæðingur þinn er einnig að berjast í UFC í fyrsta sinn. Hann er mjög óreyndur, með aðeins sex bardaga að baki á níu mánuðum og þú veist í rauninni ekkert um hann nema að hann sé glímumaður. Þú ferð inn í bardagann og þessi 21 árs nýliði gjörsamlega pakkar þér saman.
Andre Gusmao taldi að hann hefði bara átt slæman dag í búrinu þegar ungi og óreyndi andstæðingur hans sigraði hann. Þjálfarar hans reyndu að sannfæra hann um að andstæðingur hans hefði bara verið svona hrikalega góður og ætti eftir að verða meistari einn daginn. Gusmao var ekki að kaupa það og hélt áfram að svekkja sig á eigin frammistöðu.
Í dag, rúmlega fimm árum eftir þennan bardaga, er óreyndi andstæðingur hans ríkjandi UFC meistarinn í léttþungavigt, ósigraður og einn besti bardagamaður heims pund fyrir pund. Óreyndi bardagamaðurinn hélt áfram að gjörsigra andstæðinga sína og kleif hratt upp metorðastigann. Óreyndi bardagamaðurinn var Jon Jones.
Fyrsti UFC bardagi Andre Gusmao var gegn Jon Jones! Gusmao tapaði næsta bardaga í UFC og var látinn fara. Hann getur þó huggað sig við það að hann var fyrsti andstæðingur Jon Jones í UFC og átti einfaldlega við ofurefli að etja þennan dag.
Frekar pirrandi að fá Jones eða Jose Aldo í fyrsta bardaga!