spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentGeorges St. Pierre: Er mjög ánægður með þessa ákvörðun

Georges St. Pierre: Er mjög ánægður með þessa ákvörðun

Georges St. Pierre tilkynnti í gær að hann væri formlega hættur í MMA. Hinn 37 ára gamli St. Pierre sagði að það væri engin eftirsjá og telur hann að þetta sé rétti tíminn til að hætta.

Georges St. Pierre (GSP) er einn af allra bestu bardagamönnum sögunnar í MMA. GSP lauk ferlinum með bardagaskorið 26-2 en GSP hefndi fyrir bæði töp ferilsins (gegn Matt Hughes og Matt Serra). GSP vann því alla bardagamenn sem hann mætti og á ótal met.

GSP var einlægur á blaðamannafundinum í gær og segist hafa íhugað þetta lengi en hann barðist síðast í nóvember 2017.

„Það eru engin tár. Ég er mjög ánægður með þessa ákvörðun. Það krefst mikils aga að hætta á toppnum, þetta var langt ferli í mínum huga en ég varð að gera þetta. Aðeins örfáir hafa getað hætt á toppnum og ég sagði alltaf að ég vildi hætta þegar ég vildi en ekki láta segja mér að hætta. Það krefst aga, þannig áttu að hætta. Maður á að hætta á toppnum,“ sagði GSP á blaðamannafundinum í gær.

Eftir að GSP hafði verið meistari í veltivigt lengi og náði svo millivigtartitlinum með sigri á Michael Bisping vildi hann fá nýja áskorun. Orðrómur um bardaga gegn Khabib Nurmagomedov var lengi á kreiki og sagði GSP að sá orðrómur hafi ekki verið úr lausu lofti gripinn.

„Umboðsmaður minn var í viðræðum við UFC og við reyndum að fá bardaga gegn Khabib. Ég veit að Khabib vildi það og ég vildi það en UFC er með önnur plön. Á þessum tímapunkti snérist þetta meira um að taka einn bardaga í einu í stað þess að berjast í nokkur ár. Eins og bransinn virkar í UFC þá vilja þér kynna einhvern sem ætlar að vera í UFC í nokkur ár. Það er fjárfesting fyrir þá.“

GSP mun halda áfram að æfa sem bardagalistamaður og halda áfram að bæta sig þar en mun aldrei keppa aftur.

„Ég hef ekki sama drifkraft og áður, ég er ekki sama manneskja. Í gamla daga var ég fátækur og hljóp í snjónum um veturinn, klæddi mig í plastpoka undir skónum og hljóp. Tók sprettina mína og öskraði „Stríð!“ eins og Marvin Hagler, ég var klikkaður. Ég geri svona hluti ekki lengur. Áður fyrr langaði mig að vinna alla, hver sem er og hvenær sem er, ég vildi rústa öllum og hætta á toppnum. Ég hef ekki sömu reiði og sama hungur lengur. Þrátt fyrir að mér líði eins og ég sé á toppnum líkamlega er hungrið ekki það sama.“

Khabib var spenntur fyrir því að mæta GSP og birti á Instagram í vikunni færslu þar sem hann bað GSP um að mæta sér í nóvember.

„Ég sá skilaboðin hans á netinu. Fyrir bardagamann á þessum tímapunkti eins og hjá mér er það mest spennandi og ógnvekjandi að mæta einhverjum sem virðist vera ósigrandi. Khabib er sá maður núna. Þetta hefði verið bardagi sem hefði gert gott fyrir arfleifð mína. Ég vissi að hann vildi mæta mér og ég var spenntur þegar ég sá skilaboðin hans en því miður þarf tvo bardagamenn og bardagasamtök til að láta bardaga fara fram. UFC var með önnur plön fyrir Khabib.“

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular