Georges St. Pierre tilkynnti í dag að hann væri formlega hættur. Þetta tilkynnti hann á blaðamannafundi í Montreal í dag.
Tilkynning hins 37 ára gamla Georges St. Pierre (GSP) kemur ekki eins og þruma úr heiðskýru lofti. Hann hefur ekki barist í langan tíma og var aldrei neinn vafi á um hvað blaðamannafundurinn átti að snúast um þegar hann var fyrst tilkynntur.
GSP barðist síðast í nóvember 2017 þar sem hann sigraði Michael Bisping. Þar með vann hann millivigartitil UFC en GSP var lengi vel veltivigtarmeistari UFC og á metið yfir flestar titilvarnir í þeim flokki. GSP á fjölmörg met en hann er einn af sex keppendum sem hefur verið meistari í tveimur flokkum í UFC.
„Það krefst mikils aga að verða meistari og halda titlinum. Það krefst líka mikils aga að hætta þegar þér finnst þú ennþá vera í besta formi lífsins, andlega og líkamlega. En ég ætlaði alltaf að yfirgefa íþróttina þegar ég væri á toppnum og við góða heilsu,“ sagði GSP í yfirlýsingu.
„Ég vil þakka fjölskyldunni, aðdáendum, þjálfurum, æfingafélögum, styrktaraðilum og umboðsmanninum mínum fyrir þeirra fullkomna stuðning í gegnum árin.“
GSP var veltivigtarmeistari í 2.204 daga eða þar til hann tók sér pásu frá íþróttinni árið 2013 eftir sigur á Johny Hendricks. Hann snéri svo aftur í fyrra með sigrinum á Bisping. Eftir að GSP tók titilinn af Michael Bisping lét hann beltið af hendi aðeins 33 dögum eftir að hafa unnið titilinn og var það hans síðasti bardagi.
GSP er algjör goðsögn og að margra mati besti bardagamaður allra tíma.