Monday, May 27, 2024
HomeErlentGSP íhugar endurkomu gegn Khabib

GSP íhugar endurkomu gegn Khabib

Nokkur ár eru síðan Georges St-Pierre lagði hanskana á hilluna en nú virðist sem kappinn sé að fá fiðring fingurgómanna fyrir því að stíga inn í búrið aftur. En endurkoma hans yrði samt skilyrðum háð.

Nærri þrjú ár eru liðin síðan fyrrum veltivigtar- og millivigtarmeistarinn barðist síðast en hann hefur engu að síður haldið áfram að æfa af eljusemi síðan hann hætti til þess að eiga enn möguleikann á að snúa til baka. Þessi kanadíska súperstjarna sem nú er 39 ára gamall veit að tíminn bíður ekki eftir neinum og virðist sú staðreynd vera það sem drífur hann áfram í átt að hugsanlegri endurkomu í búrið.

„Af hverju ætti ég að berjast aftur? en á sama tíma af hverju ekki?“ sagði St-Pierre í viðtali við TSN á miðvikudaginn síðastliðin og hélt áfram: „Við lifum bara einu sinni og þetta er spurningin sem ég er að glíma við núna. Hvað ef ég fæ þetta gullna tækifæri á að koma til baka, ég hef ennþá það sem til þarf. Ég myndi segja að ég væri enn á mínum bestu árum. Mun ég sjá eftir því að hafa gefið þetta tækifæri upp á bátinn þegar ég verð 50 ára? Mun ég segja við sjálfan mig þá að ég vildi ég hefði óskað þess að hafa bara kýlt á þetta?“

Áður en St-Pierre steig frá sportinu í annað skiptið sóttist hann eftir bardaga við ríkjandi léttvigtarmeistarann Khabib Nurmagomedov. Samningsviðræður við UFC um þann bardaga skriðu aldrei af byrjunarreit sem varð svo til þess að hann lagði hanskana á hilluna. Bardagi við Khabib er eitthvað sem ætlar seint að víkja úr huga St-Pierre og virðist sá bardagi vera það sem hann vill fá áður en ferlinum endanlega lýkur:

„Bardagi við Khabib er tækifæri sem manni býðst aðeins einu sinni á ævinni. Þetta er maður sem hefur aldrei tapað og ég gæti verið sá fyrsti til þess að sigra hann. Núna þegar ég er að æfa er ég mjög sannfærður um getu mína og ef einhver myndi spyrja mig meðan ég er að æfa eða klukkutíma fyrir æfingu ‘hey myndir þú berjast aftur’ þá væri svarið já. En svo þegar ég er kominn heim og búinn að fara í sturtu og ná mér niður og einhver myndi spyrja mig sömu spurningu þá er ég ekki alveg eins viss. Ég er góður eins og er. Mér líður vel. Ég er sáttur. En það að vera sáttur er dauði bardagamannsins. Þú ert búinn þegar þú ert sáttur.“

St-Pirre er meðvitaður um að línann milli þess að vera hættur og ekki hættur er afar þunn og segir hann því í viðtalinu að það þyrfti mikið til svo hann myndi stíga aftur inn í búrið. Að því sögðu ætlar hann að halda hurðinni opinni fyrir einn bardaga í viðbót en sá bardagi yrði að vera gegn Nurmagomedov.

„Ef að þessum bardaga verður þarf ég að koma mér í annað hugarástand en ég er í núna. Ég þyrfti að koma mér í algjöran vígahug því þegar ég berst þá er heilastarfsemi mín öðruvísi en í mínu daglega lífi.  Ég er með mikla þráhyggju og þegar ég einbeiti mér að einhverju þá kemst ekkert annað að, það eina sem ég einbeiti mér að er að sigra og hvað ég þarf að gera til þess að sigra. Það er hugarástandið sem ég þyrfti að koma mér í ef ég á að berjast aftur.“

Það er óhætt að segja að það sem hindrar þessa hugsanlegu endurkomu sé að ólíklegt þykir að UFC komi til með að bóka bardagann í léttvigtinni. Því fari það svo að St-Pierre myndi vinna bardagann og þar með léttvigtarbeltið af Khabib eru allar líkur á því að St-Pierre myndi hætta eftir bardagann og gefa beltið eftir líkt og hann gerði í millivigtinni sem myndi skapa þónokkurn glundroða í léttvigtinni.

St-Pierre er þó með lausn á reiðum höndum við þessu vandamáli og segir að best væri ef þeir myndu mætast í hentivigt þar sem bæði hann og Khabib myndu þurfa að fórna einhverju en þar með myndu þeir standa jafnt að vígi.

„Ég geri mér alveg grein fyrir því að það þarf að huga að öllum innviðum í léttvigtinni,“ útskýrði St-Pierre „Hann [Khabib] er 155 pund þegar hann berst. Ég veit að ég get komið mér niður í 155 en vandamálið er að ég er orðinn 39 ára og það eru þrjú ár síðan ég barðist síðast. Ég hef ekki skorið niður mjög lengi. Ef ég píni mig niður í 155 mun það bitna á frammistöðu minni. Ég veit að ég og Khabib erum svipaðir í stærð, hann er jafnvel stærri en ég er þegar hann er ekki að berjast,“ Sagði St-Pierre og hélt áfram:

„Ég hef aldrei verið mjög hrifinn af því að skera mikið niður. Meira að segja þegar ég var í veltivigtinni voru flestir þar stærri en ég. Ég hef aldrei slegist í léttvigtinni og ég held að hann [Khabib] myndi vilja hafa þetta sanngjarnt, þannig að við þyrftum að slást í vigt sem við höfum aldrei slegist í áður. Það er skilyrði sem ég set ef þessi bardagi á að fara fram,“ Sagði St-Pierre að lokum.

Dana White hefur í gegnum tíðina ekki verið gjarn á að setja saman ofurbardaga í hentivigt svo það er ekkert ólíklegt að þessi bardagi líti aldrei dagsins ljós. Hins vegar hefur Dana gefið það út að akkúrat þessum bardaga, Georges St-Pierre gegn Khabib Nurmagomedov, væri eitthvað sem hann væri til í að sjá.

Tíminn verður þó að fá að leiða þetta allt saman í ljós. Eins og staðan er núna er Khabib að undirbúa sig fyrir titilvörn sína gegn Justin Gaethje síðar í þessum mánuði.

Sjonni
Sjonnihttps://www.mmafrettir.is
-Bardagaáhugamaður -Fjólublátt belti í BJJ -Stjórnamaður í Mjölni -Tölvunarfræðingur
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular