Bardagakappinn Gunnar Nelson mun etja kappi við 10 starfsmenn CCP í glímu. Glímurnar fara fram þann 2. maí og er hluti af EVE Fanfest
CCP framleiðir m.a. tölvuleikinn EVE Online og heldur árlega EVE Fanfest. Reiknað er með um 1200 gestum hvaðan æfa úr heiminum á EVE Fanfest. CCP eru oft með sérstaka viðburði en fyrir nokkrum árum síðan kepptu tveir starfsmenn fyrirtækisins, skákmaður og boxari, í skákboxi.
Í ár mun 10 manna lið CCP keppa við Gunnar Nelson í uppgjafarglímu. Allir munu glíma við Gunnar í uppgjafarglímu og er eina leiðin til sigurs uppgjafartak en engin stig verða gefin og eru engin tímamörk.
Sveinn Kjarval, þjálfari og andlegur leiðtogi liðsins, hafði þetta að segja um glímurnar: “Við ætlum að vinna, það er ekki flóknara en það. Strákarnir mínir eru búnir að æfa mikið og við erum með hörkuplan. Auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að Gunni er upp á tíu…en við ERUM tíu!”