spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaGunnar Nelson skrifar undir nýjan samning við UFC

Gunnar Nelson skrifar undir nýjan samning við UFC

Gunnar Nelson hefur skrifað undir nýjan fimm bardaga samning við UFC. Búast má við að næsti bardagi verði tilkynntur fljótlega.

Gunnar Nelson skrifaði á dögunum undir nýjan samning við UFC. Samningur Gunnars við UFC átti að renna út eftir næsta bardaga og hefði því verið frjálst að ræða við önnur bardagasamtök. Gunnar kaus þess í stað að skrifa undir nýjan samning og verður hans næsti bardagi sá fyrsti á nýjum samningi.

Gunnar hefur verið í UFC frá 2012 og er með átta sigra og fimm töp. Gunnar hefur ekki barist síðan í september 2019 þegar hann tapaði fyrir Gilbert Burns. Von er á Gunnari í búrið á næstunni en hann hefur einnig samþykkt bardaga á komandi vikum þó og verður það tilkynnt á næstu dögum að sögn Gunnars.

UFC óskaði af fyrra bragði eftir því að gera nýjan samning við Gunnar að sögn Haraldar Dean Nelson föður Gunnars og umboðsmanns.

„Þetta er fimm bardaga samningur sem tekur gildi strax þannig að síðasti bardagi á gamla samningnum fellur niður og má kannski segja að sé fyrsti bardaginn á nýja samningnum. Við vissum af áhuga fleiri bardagasamtaka á því að semja við Gunnar og UFC hefur að öllum líkindum vitað af því líka og viljað tryggja samning við Gunnar áfram,“ segir Haraldur í fréttatilkynningu.

Sjálfur segist Gunnar aldrei hafa hugleitt af neinni alvöru að semja við aðra en UFC en þar segir hann margt koma til, ekki síst öflug lyfjapróf innan UFC sem ekki séu til staðar hjá öðrum samtökum. „UFC eru einfaldlega lang stærsta og öflugasta MMA keppnin í heiminum í dag og lyfjaprófin skipta að mínu mati gríðarlega miklu máli,“ segir Gunnar.

„Við vissum af áhuga annarra MMA samtaka en meðan lyfjapróf þeirra eru lítil eða engin komu aðrir bara ekki til greina. Ég hef áður sagt að ég muni aldrei taka nein ólögleg lyf og ef það er forsenda fyrir því að vera í fremstu röð þá mun ég hætta. Ég er mjög sáttur við að vera bara faðir og þjálfari ef út í það er farið. Ég hef fundið það á síðustu árum hvernig þjálfun í Mjölni gefur mér alltaf meira og meira og sé framtíð mína svo sannarlega við þjálfun þegar keppnisferli lýkur. Og ef honum lyki á morgun þá væri það bara allt í lagi. Það er hins vegar ekki stefnan alveg strax og nú er nýr samningur við UFC í höfn og ég er mjög sáttur,“ segir Gunnar

„Ég er nýlega stiginn uppúr Covid og er svona að byrja æfingar aftur. Nú er bara að koma sér í almennilegt keppnisform og vonandi getum við tilkynnt næsta bardaga á næstu dögum eða vikum,“ segir Gunnar að lokum.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular