Eins og við greindum frá í gær var Anderson Silva dæmdur í eins árs keppnisbann eftir að ólögleg efni fundust í lyfjaprófi hans. Silva hélt allan tímann fram sakleysi sínu en málsvörn hans var vandræðalega léleg.
Mál Anderson Silva var tekið fyrir í gær af íþróttasambandi Nevada fylkis (NAC) eftir ítrekaðar frestanir að beiðni Silva og hans lögfræðings.
Anabólíski sterinn drostanolone fannst í lyfjaprófi Anderson Silva fyrir bardaga hans gegn Nick Diaz á UFC 183. Efnið fannst bæði á lyfjaprófinu þann 9. janúar og á lyfjaprófinu kvöldið sem bardaginn fór fram, 31. janúar. Á lyfjaprófinu sem tekið var 9. janúar fannst einnig anabólíski sterinn androstane, svefnlyfið temazapam og kvíðalyfið oxazepam.
Silva hélt allan tímann fram sakleysi sínu og segist ekki hafa tekið inn stera af ásettu ráði. Michael Alonso, lögfræðingur hans, hélt því fram að stinningarlyf væri rót vandans. Silva segist hafa fengið stinningarlyf í vökvaformi frá fyrrum æfingafélaga sínum. Drykkurinn var í blárri lyfjaflösku og keypt í Tælandi en lyfið er ekki fáanlegt í Bandaríkjunum eða Brasilíu. Lyfið er kallað Cialis en Silva gat ekki verið fullviss um heiti lyfsins.
Málsvörn Silva hélt því fram að stinningarlyfið hafi innihaldið anabólíska sterann drostanolone eftir prófanir vitnisins Paul Scott. Aftur á móti hafði „sérfræðingurinn“ Paul Scott nákvæmlega ekkert til að sanna mál sitt. Lögfræðingur Silva hafði fengið Scott til að prófa fæðubótarefni í eigu Silva til að kanna hvaða efni gætu hafa innihaldið sterana. Hann gat þó ekki sagt hversu mörg efni hann prófaði en giskaði á sjö efni.
Málsvörn hans var því hlægilega léleg og var lykilvitni óundirbúið. Scott hafði engin skjöl til að sanna að stinningarlyfið Cialis innihéldi drostanolone en hann sagðist vera með skjalið í tölvunni sinni heima. Af hverju í ósköpunum var hann ekki með skjalið eða tölvuna með sér?
Þegar Silva var spurður hvers vegna hann hefði tekið inn lyfið sagði hann það vera sitt einkamál. Silva vildi ekki greina íþróttasambandi Nevada frá inntöku lyfsins fyrir bardagann þar sem honum fannst það óþægilegt. Það er því skýr fölsun af ásettu ráði að mati NAC.
Nefndarmaður NAC, Anthony Marnell, spurði Silva hvort hann hefði talið það skynsamlegt að drekka blátt efni úr lyfjaglasi frá vini sem var nýkominn frá Tælandi. Sérstaklega í ljósi þess hve stórt nafn hann er og hve mikið var undir eftir allt sem hann hafði gengið í gegnum. Silva sagðist ekki hafa hugsað svo langt.
Silva viðurkenndi notkun á temazapam (svefnlyf) og oxazepam (kvíðalyf) kvöldið fyrir bardagann. Lyfin áttu að minnka streitu og hjálpa honum að sofna. Málsvörn Silva gat þó ekki gert grein fyrir efninu androstane (anabólískur steri) sem fannst á lyfjaprófinu 9. janúar.
Anthony Marnell lauk málinu á þessum nótum. „Mér finnst eins og við séum ekki að fá heildarsöguna. Ég er ekki að segja að þetta sé lygi en mér finnst eins og það vanti heildarmyndina. Ég er ekki að taka neitt frá Silva, hann hefur gert magnaða hluti en þetta er í fyrsta sinn sem hann hefur gengist undir strangari lyfjapróf svo það er erfitt að taka mark á fyrri lyfjaprófum hans þó hann hafi staðist þau.“
Anderson Silva fékk eins árs bann og var sektaður um 380.000 dollara. Sigurinn gegn Nick Diaz var dæmdur ógildur.