spot_img
Saturday, December 21, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentHverjir verða UFC meistarar í árslok 2020?

Hverjir verða UFC meistarar í árslok 2020?

Það er hrikalega erfitt að spá fyrir úrslitum í MMA og hvað þá að reyna að sjá fyrir sér nýja stöðu að 12 mánuðum liðnum. Það er algjörlega ómögulegt og í raun frekar heimskulegt að reyna en það mun þó ekki stoppa okkur.

Aðeins til upprifjunar. Af ríkjandi UFC meisturum voru eftirtaldir meistarar í upphafi árs 2019 og hafa því þraukað árið: Amanda Nunes, Valentina Shevchenko, Jon Jones, Khabib Nurmagomedov og Henry Cejudo.

Við förum því yfir alla tólf þyngdarflokkana og spáum í spilin. Hvaða meistarar halda beltinu og hverjir koma nýjir inn?

Strávigt kvenna – Tatiana Suarez

Þvílíkur þyngdarflokkur! Þegar Rose Namajunas virtist ætla að festa sig í sessi með sigrum gegn Joanna Jędrzejczyk var hún rotuð af Jessia Andrade sem var svo rotuð af Zhang Weili. Namajunas gæti komið með endurkomu en það má ekki gleyma Tatiana Suarez sem hefur verið óstöðvandi í hennar fimm UFC bardögum. Það er vonlaust að spá í þessum þyngdarflokki en segjum að þetta verði ár Suarez.

Fluguvigt kvenna – Valentina Shevchenko

Valentina tók beltið af Joanna Jędrzejczyk árið 2018 og hingað til hefur hún virkað gjörsamlega ósnertanleg. Hún varði beltið tvisvar á síðasta ári og á næst að berjast við Katlyn Chookagian í febrúar en fáir gefa henni mikla möguleika gegn Shevchenko. Valentina virðist mun betri en allir mögulegir andstæðingar í þyngdarflokknum og ætti því að halda beltinu í langan tíma nema eitthvað óvænt gerist.

Fluguvigt – Joseph Benavidez

Benavidez hefur um langt skeið verið næst besti bardagamaðurinn í fluguvigt. Nú þegar Demetrious Johnson og Henry Cejudo eru báðir farnir úr þyngdarflokknum virðist hans tími loksins vera kominn. Benavidez mætir Deiveson Figueiredo í febrúar. Sigur er alls ekki gefinn en Benavidez verður að teljast líklegri og eins er líklegt að hann þrauki árið.

Bantamvigt kvenna – Amanda Nunes

Ljónynjan Amanda Nunes hefur ráðið ríkjum í bantamvigt kvenna síðan 2016. Á þeim tíma hefur hún nánast hreinsað upp þyngdarflokkinn. Þær sem eru líklegar í titilbardaga eru Aspen Ladd, Julianna Peña og Irene Aldana en hver heldur virkilega að þær eigi séns í Nunes?

Bantamvigt – Petr Yan

Bantamvigt er hákarlabúr þar sem titillinn er líklegur til að skiptast nokkuð mikið um hendur. Núverandi meistari, Henry Cejudo, er mjög sterkur og hann gæti haldið út árið en ég myndi ekki veðja á það með áskorendur eins og Petr Yan, Aljamain Sterling og Cory Sandhagen á hliðarlínunni.

Fjaðurvigt kvenna – Enginn

Þessi þyngdarflokkur var búinn til fyrir Cris Cyborg en hún er farin til Bellator. Amanda Nunes heldur á beltinu í dag en það er bókstaflega enginn önnur í þyngdarflokkunum, hugsanlega fyrir utan Felica Spencer. Þessi þyngdarflokkur verður lagður niður á árinu er okkar spá.

Fjaðurvigt – Alexander Volkanovski

Fjaðurvigt er annar rosalegur þyngdarflokkur. Max Holloway tapaði nýlega beltinu og útlit er fyrir að hann fái annað tækifæri gegn Alexander Volkanovski. Miðað við fyrsta bardagann verður þó að teljast líklegt að niðurstaðan verði sú sama. Ef við gefum okkur svo að Volkanovski verji beltið aftur á árinu gegn t.d. Zabit Magomedsharipov eða Chan Sung Jung er ekki ólíklegt að hann verði enn meistari í árslok.

Léttvigt – Tony Ferguson

Hann hefur beðið og beðið, sigrað tólf andstæðinga í röð og nú ætti hann loksins að fá titilbardagann gegn Khabib Nurmagomedov í apríl. Sá bardagi verður stál í stál en en ef Tony nær að sigra Rússann er líklegt að hann verði enn með beltið í árslok.

Kamaru Usman

Veltivigt – Kamaru Usman

Veltivigt er orðinn einn besti og erfiðasti þyngdarflokkurinn. Á síðasta ári voru margir af eftirminnilegustu bardögum ársins í veltivigt og það gæti hæglega haldið áfram. Kamaru Usman kom sá og sigraði með afgerandi sigrum gegn Tyron Woodley og Colby Covington. Hans helstu ógnir eru Leon Edwards, sem hann hefur áður unnið og Jorge Masvidal, sem er líklegur til að eltast við Conor McGregor á árinu. Usman verður að teljast sigurstranglegri í öllum mögulegum bardögum í veltivigt svo við segjum að hann haldi beltinu á árinu.

Millivigt – Israel Adesanya

Adesanya var bardagamaður ársins að okkar mati og ekki að ástæðulausu. Hann sýndi hörku og hjarta gegn Kelvin Gastellum og sýndi ótrúlega hæfileika og getu undir pressu gegn Robert Whittaker. Líklegir andstæðingar á árinu eru ekkert grín, Yoel Romero og Paulo Costa en Adesanya er engum líkur og gæti hæglega verið í sömu stöðu að ári.

Léttþungavigt – Jon Jones

Það væri gaman að spá einhverju öðru en hvernig er það hægt? Jon Jones hefur aldrei tapað (ekki minnast á Matt Hamill) og hefur hreinsað upp þyngdarflokkinn sinn eins og kók á gleri. Næst mætir hann Dominick Reyes í febrúar og hver veit hvernig það fer. Jones er kannski farinn að dala en ætlið þið virkilega að veðja gegn honum?

Þungavigt – Francis Ngannou

Sögulega séð hefur verið nær ómögulegt að halda í beltið í þungavigt. Í hvert sinn sem einhver rosalegur grípur beltið kemur einhver annar í næstu viku og rotar hann. Höggin eru einfaldlega það þung að allt getur gerst. Á þessu ári er búist við endurati á milli Daniel Cormier og Stipe Miocic en þar á eftir er Francis Ngannou mjög líklegur í titilbardaga komist hann framhjá nýliða síðasta árs, Jairzinho Rozenstruik. Ngannou hefur auðvitað tapað fyrir Miocic en hann virðist vera orðinn betri og virkar satt að segja óstöðvandi um þessar mundir.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular