B.J. Penn er lifandi goðsögn. Hann hefur átt ótrúlegan feril, hætt og snúið aftur ótal sinnum en á morgun berst hann sinn fyrsta bardaga í 18 mánuði. Getur hann unnið Yair Rodriguez?
Þessi 38 ára bardagakappi frá Havaí er einn af brautryðjendum íþróttarinnar – fyrsti maðurinn utan Brasilíu til að verða heimsmeistari í brasilísku jiu-jitsu, UFC meistarinn bæði í léttvigt og veltivigt og svo keppti hann meira að segja við Lyoto Machida í léttþungavigt!
En nú er Penn 38 ára. Hann hefur ekki unnið bardaga í rúmlega sex ár; þegar hann sigraði seinast var Anderson Silva enn ósigraður í UFC og ný búinn að vinna Chael Sonnen í fyrsta sinn, Fedor var óumdeildur konungur MMA og Tiger Woods var besti golfari heims. B.J. hefur lagt hanskana tvisvar á hilluna á undanförnum fjórum árum en þrátt fyrir það er hann að keppa á sunndudaginn gegn ungum og hungruðum bardagakappa á uppleið. Á hann séns? Heilinn segir nei. Hjartað segir já. Förum yfir hvernig B.J. Penn getur sigrað Yair Rodriguez.
Felluvörnin
B.J. Penn er með einhverja ótrúlegustu felluvörn sem sést hefur í MMA. Jafnvægið og liðleikinn gera það að verkum að mörgum hefur reynst nánast ómögulegt að taka hann niður. Svo er Penn auðvitað enginn brandari á bakinu. Diego Sanchez, sem er nokkuð góður glímumaður, reyndi 19 fellur í bardaga þeirra en tókst ekki að ná einni einustu. Það verður að teljast ólíklegt að Rodriguez muni takast að ná B.J. í gólfið og að öllum líkindum hefur hann engan áhuga á að keppa við B.J. þar. Rodriguez mun sennilega leitast við að halda bardaganum standandi.
Boxið
Penn hefur alltaf verið sterkur boxari. Fyrstu þrír sigrar hans í MMA voru allir eftir fyrstu lotu rothögg. Hann lét menn eins og Diego Sanchez, Sean Sherk og Joe Stevenson líta út eins og áhugamenn standandi. Diego Sanchez veitti 150 högg en aðeins átta þeirra hittu Penn í bardaga þeirra. Yair Rodriguez er mjög spennandi standandi, notar mikið af óhefðbundnum spörkum og það verður fróðlegt að sjá hvort Penn eigi roð í hann þar.
Ef B.J. Penn kemur inn standandi með svipuðum hætti og í seinasta bardaga sínum gegn Edgar er þó hætt við að þetta verði langt kvöld hjá gamla manninum þar sem Rodriguez er með góð lágspörk og notar hliðarspörk í hnén óspart. Það breytir því ekki að Penn er ansi sterkur boxari og höggþungur. Þar að auki hefur hann aldrei verið rotaður.
Glíman
Penn er einn allra besti BJJ keppandi í MMA frá upphafi. Hann er gífurlega liðugur og með Jiu jitsu-stíl sem hentar sérlega vel fyrir MMA. Það vill hins vegar oft gleymast að Penn er með hörku fellur líka. Sem dæmi tók hann Jon Fitch niður en Fitch er bæði stærri en Penn og keppti í efstu deild í bandarísku háskólaglímunni. Rodriguez á það til að bakka beint afturábak í átt að búrinu og mögulega er planið hjá Penn að pressa hann upp að búrinu og ná fellunni.
Leið Penn að sigri er að öllum líkindum ekki standandi. Yair Rodriguez hefur sýnt góða takta í jörðinni líkt og gegn Charles Rosa þegar hann var mjög nálægt því að klára með „triangle“ hengingu af bakinu en Rosa þraukaði. Það er þó engin spurning að B.J. Penn ætti að hafa yfirburði ef bardaginn endar í jörðinni. Hvort gamla manninum tekst að koma bardaganum þangað kemur í ljós annað kvöld.