spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentIllkvendið Julianna Peña

Illkvendið Julianna Peña

Hin 27 ára Julianna Peña berst um helgina í hennar stærsta bardaga á ferlinum. Hún er í dauðafæri á að koma sér í titilbardaga sem hún telur sig eiga svo mikið skilið.

Peña hefur í fjórum bardögum í UFC unnið sig upp í annað sætið á styrkleikalista UFC og getur með sigri á hinni rússnesku Valentinu Shevchenko komið sér í titilbardaga gegn meistaranum Amöndu Nunes.

En hver er hún og hvaðan kemur hún? Julianna Peña er bandarísk en á ættir að rekja til Venesúela enda kölluð ‘The Venezuelan Vixen’. Fyrir þá sem ekki vita þýðir „vixen“ illkvendi og á það ágætlega við miðað við hvernig hún er í búrinu.

Peña er lagleg og vel að orði komin en á það til að breytast í villidýr í búrinu. Hún byrjaði MMA ferilinn af mikilli hörku, sigraði fjóra andstæðinga í röð og kláraði alla á innan við tveimur mínútum. Eftir það lenti hún í hræðilegu óhappi þegar drukkinn ökumaður keyrði á hana. Peña rotaðist við slysið og nefbrotnaði en barðist engu að síður tveimur mánuðum síðar.

Hún tapaði bardaganum en þetta er engu að síður einkennandi um andlega hörku Peña. Í hennar næsta bardaga tapaði hún aftur á stigum en komst engu að síður í The Ultimate Fighter þar sem hún sigraði þrjár konur, þar með talið Shayna ‘The Queen of Spades’ Baszler sem var talinn mjög óvæntur sigur. Peña sigraði að lokum Jessica Rakoczy í úrslitabardaganum og vann þar með seríuna.

Miklar væntingar voru gerðar til Peña en hræðilegt slys á glímuæfingu olli því að hún sleit liðbönd í hné og var frá keppni í eitt og hálft ár. Atvikið var mjög umdeilt og allt bendir til að þarna hafi verið ansi slæmur æfingafélagi á ferð. Síðan þá hefur Peña verið á góðri siglingu en hápunkturinn var frábær sigur gegn Cat Zingano í júlí í fyrra.

Ímynd hennar hefur þó beðið hnekki undanfarið ár. Fyrir það fyrsta var hún ákærð fyrir líkamsárás eftir að hafa ráðist á dyravörð á skemmtistað. Í öðru lagi var hún öskuill þegar Ronda Rousey fékk titilbardaga gegn Amöndu Nunes en ekki hún.

Peña blótaði Rousey í sand og ösku, sagði hana vera lélega og að bardaginn við Nunes væri kjaftæði. Pena hótaði hreinlega að hætta í MMA eftir að Ronda fékk titilbardagann. Peña hafði í fyrstu engan áhuga á bardaga gegn Shevchenko enda fannst henni fáranlegt að hún væri ekki að berjast um titilinn eftir heila fjóra sigra í röð.

Nú þarf Peña að standa við stóru orðin og tryggja sér titilbardagann með sigri á morgun. Hvernig sem fer verður í það minnsta gaman að fylgjast með þessari blóðheitu bardagakonu í framtíðinni.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular