spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentÍslenskir bardagamenn: Þorgils Eiður Einarsson

Íslenskir bardagamenn: Þorgils Eiður Einarsson

Mynd: Róbert Elís @robertelis_photography

Í þessum lið ætlum við að skoða íslenska bardagamenn- og konur. Einblínt er á komandi mót, framtíðarsýn og undirbúning fyrir næstu bardaga.

Nafn: Þorgils Eiður Einarsson
Aldur: 26 ára
Bardagaíþrótt: Muay Thai
Félag: VBC
Bardagaskor: 1-2 Muay Thai, 1-0 í áhugamannahnefaleikum
Rothögg: 1
Dómaraúrskurðir: 3

Uppruni

Ég er fæddur í Reykjavík en uppalinn í Kópavoginum. Bjó fyrstu grunnskóla árin í Lindahverfinu og flutti síðan þaðan á Vatnsendann. Þetta byrjaði allt þegar ég var held ég u.þ.b 5-6 ára gamall og horfði á Bruce Lee myndirnar, varð alveg heltekinn af þeim og bað foreldra mína að skrá mig í bardagaíþróttir. Bardagaferillinn minn er alls ekki stuttur en ég byrjaði í Taekwondo þegar ég var um 6 ára þar sem pabbi var að æfa.

Ég lenti í 2. sæti á Íslandsmeistaramóti á þeim tíma, sem ég var alls ekki sáttur með, vegna þess að ég tapaði fyrir bróður mínum í úrslitunum.
Samhliða Taekwondoinu þá byrjaði ég í Kung Fu/Wushu/Sanda, var í því lengi undir Zang sem var þjálfarinn minn frá Kína. Náði 2. sæti á Norðurlandameistaramóti unglinga áður en ég hætti þar. Síðan byrjaði ég í Mjölni bæði í jiu-jitsu og kickboxinu en það var stutt stopp, hætti svo þar vegna meiðsla sem ég þurfti að jafna mig á. Ég byrjaði svo frekar nýlega að glíma aftur einu sinni í viku uppí VBC.

Eftir meiðslin byrjaði ég að æfa Pencak Silat Ég kynntist því hérna heima og ferðaðist svo til Indónesíu og æfði Silat þar í smá stund upp á fjalli í smábæ sem heitir Pangalengan. Svo ákvað ég að prófa hnefaleika og tók einn bardaga í því sem ég vann en samhliða boxinu byrjaði ég að æfa spörkin með sem ég hafði lært í Taekwondo og Kungfu og varð hreinlega ástfanginn af Muay Thai. Vann minn fyrsta Muay Thai bardaga í Varberg í Svíþjóð með rothöggi í annarri lotu en hef svo tapað tveimur bördögum á dómaraúrskurði. Ég hélt að seinni bardaginn hefði verið algjörlega minn en svona er það bara. Þetta kveikti ákveðinn eld í mér og hef ég sett allt á fullt eftir það. Hef bara ekki fengið annan bardaga ennþá vegna Covid, en ég er alltaf tilbúinn og er í toppformi og bíð bara spenntur eftir tækifærinu.
Í dag starfa ég í íbúðarkjarna við að aðstoða einhverfa hjá Reykjavíkurborg.

Undirbúningur

Æfi á hverjum einasta degi í gymminu á meðan það var opið, annars hef gert það sama síðan allt lokaði og æft heima hjá mér eða úti. Verð að segja að það er frekar fúlt samt að allt skuli vera lokað. Seinustu tveimur bardögum hjá mér hefur verið frestað vegna Covid. Þeim fyrri var frestað tveimur dögum áður en ég átti að fljúga út og þeim seinni þurfti að fresta þar sem að ég greindist sjálfur með Covid og var settur í einangrun. Ég hélt mínu striki í einangrun og ætla að halda því þannig áfram. Á síðustu tveimur árum höfum við verið að fá til okkar hann Pascal ‘The german’ Schroth, þrefaldan heimsmeistara frá Þýskalandi sem býr í Tælandi og hef ég verið að æfa með honum eins mikið og ég get á meðan hann er hér á landi. Við erum í svipaðri þyngd og svipað háir og hef ég tekið miklum framförum með honum enda topp náungi.

Þegar ég labba inn í hringinn er ég að sjálfsögðu eitthvað stressaður en líður samt yfirleitt bara frekar vel sko. Hef verið að keppa mína bardaga í kringum 70 kg og stend vanalega í svona 76-78 kg, er mismunandi eftir dögum. Ætli ég myndi ekki berjast 67-69 kg ef ég fengi einn dag á milli vigtunar og bardaga.

Er líka með hóp af æðislegum æfingafélögum, Þórður Bjarkar er líklega sá fyrsti sem kemur upp bæði mjög góður vinur og frábær fighter og þjálfari. Ásgrímur Egilsson boxari, topp maður, þrefaldur Íslandsmeistari í boxi og einn af mínum bestu vinum, búinn að þekkja hann síðan við vorum í grunnskóla algjört gull af manni. Hróbjartur Trausti Havsteen, hann einmitt var að berjast með mér fyrst þegar ég fór út að keppa og höfum við æft mikið saman bæði fyrir og eftir það og er hann einn af mínum bestu í dag. Hann er einmitt mjög efnilegur í MMA og væri ég til í að sjá meira af honum berjast. Hlynur Torfi Rúnarsson; líklega sá eini fyrir utan VBC sem sem hefur æft með mér að einhverju viti. Við æfðum mikið saman þetta ár og hjálpaði það mér mikið. Mjög góður vinur og alltaf til í taka almennilega á því en svo flutti hann til Finnlands með kærustunni sinni og er að standa sig mjög vel þar.

Framtíðarsýn

Væri fínt að komast í atvinnumenskuna bara sem fyrst. Ég vil frekar vera laminn í spað af öflugum atvinnumanni heldur en að keppa við óreyndari andstæðing. Maður lærir lítið á því. Stefnan er sett á að verða fyrsti íslenski heimsmeistarinn í Muay Thai. Klárt mál! Þó ég segi sjálfur frá þá hef ég tekið svo ótrúlegum framförum síðustu mánuðina að ég get ekki beðið eftir að sýna það í næsta bardaga.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular