Saturday, April 20, 2024
HomeErlentEnginn vill Anderson Silva

Enginn vill Anderson Silva

Anderson Silva var á dögunum leyft að fara frá UFC. Yfirmenn Bellator, ONE Championship og PFL virðast ekki hafa áhuga á að semja við Silva.

Anderson Silva er einn besti bardagamaður allra tíma. Hann fékk samningi sínum við UFC rift á dögunum en hann átti einn bardaga eftir á samningnum.

Hans síðasti bardagi var gegn Uriah Hall en bardaginn var auglýstur sem lokabardagi Silva. Skömmu fyrir bardagann lýst Silva þó yfir að þetta yrði ekki hans síðasti bardagi og hann langi að halda áfram. Dana White, forseti UFC, sagði eftir bardagann gegn Hall að þetta hefði verið síðasti bardaginn hans í UFC.

Á dögunum var Silva leyft að fara annað en möguleikunum fer fækkandi. Scott Coker, forseti Bellator, lýsti því yfir að hann væri sáttur með þá bardagamenn sem hann hefði á sínum snærum og ætlar ekki að semja við Anderson Silva.

Chatri Sityodtong, forseti ONE Championship, sagði sömuleiðis að hann hefði ekki áhuga á að semja við Silva. Að sögn Chatri skiptir öryggi bardagamanna mestu máli og telur hann það ekki öruggt að leyfa Silva að berjast í dag.

Ray Sefo, forseti Professional Fighters League, sagði síðan á dögunum að hann telji að Silva eigi að setja hanskana á hilluna og mun ekki bæta honum við PFL.

Silva er orðinn 45 ára gamall og langar að halda áfram að berjast en segir að UFC hafi reynt að neyða sig til að hætta. Hann ætlar greinilega að halda áfram að berjast en spurning hvar.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular