Einn besti fjaðurvigtarmaður allra tíma, Jose Aldo, fer niður í bantamvigt. Aldo mætir Marlon Moraes í desemberá UFC 245.
Hinn 33 ára gamli Jose Aldo hefur barist í 145 punda (66 kg) fjaðurvigt alla tíð. Nú mun hann í fyrsta sinn fara niður í 135 punda (61 kg) bantamvigt. Hann mætir þá Marlon Moraes þann 14. desember á UFC 245. Moraes mætti Henry Cejudo síðast á UFC 238 í sumar en tapaði eftir tæknilegt rothögg í 3. lotu.
Þetta kemur eflaust á óvart enda var Aldo lengi vel að tala um að fara upp í léttvigt þar sem niðurskurðurinn væri erfiður. Jose Aldo hefur undanfarinn mánuð verið að létta sig og er um 150 pund (68 kg) núna samkvæmt MMA Fighting.
Determinado a lutar no peso-galo, José Aldo mostrou que entrou firme na dieta e exibiu o novo shape #feedmma pic.twitter.com/zQbM6LNCRX
— Ana Hissa (@AnaHissa) October 22, 2019
Bantamvigtarmeistarinn Henry Cejudo vill ólmur berjast við Aldo en hann þarf að bíða eftir að Aldo mæti Moraes.
Bardaginn fer fram á UFC 245 þann 14. desember í Las Vegas en þrír titilbardagar eru þegar á dagskrá á bardagakvöldinu. Kamaru Usman mætir Colby Covington um veltivigtartitilinn, Amanda Nunes mætir Germaine de Randamie um bantamvigtartitil kvenna og Max Holloway mætir Alexander Volkanovski um fjaðurvigtartitilinn.