Júlíus Bernsdorf er kominn í úrslit á Norðurlandamótinu eftir sigur á klofinni dómaraákvörðun gegn Mark Kurji í Skara, Svíþjóð í kvöld.
Þetta var standandi striking bardagi allan tímann og þetta voru tveir stórir strákar að henda út þungum höggum allar þrjár loturnar. Júlíus var duglegri að blanda inn spörkum en Kurji hélt miðjunni og pressunni á Júlíusi. Kurji var með mikinn kraft í höndunum og greinilega mjög góður boxari. Hann átti það til að beygja sig undir víðu höggin hans Júlíusar og svara honum með þungum cross. Fyrsta lota var jöfn og Kurji lenti í þýðingamesta hreina högginu, beint á hökuna Júlíusar, undir lok annarrar lotu og leit út fyrir að það hefði mögulega tryggt honum lotuna. Kurji átti svo mjög góða þriðju lotu og var Júlíus sýnilega orðinn þreyttur og fór að éta fleiri og fleiri þung högg. Dómararnir hafa líklega séð það svo að Júlíus hafi tekið fyrstu lotuna og svo hafa verið skiptar skoðanir meðal dómara um aðra lotuna.
Kurji hefur eflaust verið ósáttur að fá ekki sigurinn dæmdan í sitt horn en sigur Júlíusar er staðreynd og hann fer áfram í úrslit á morgun.





