Kolbeinn Kristinsson sigraði Bosníumanninn Jasmin Hasic eftir dómaraákvörðun fyrr í dag. Sigurinn var gríðarlega öruggur og vann Kolbeinn allar loturnar.
Bardaginn fór fram á Nordic Fight Night bardagakvöldinu í Sundsvall í Svíþjóð. Jasmin Hasic var fyrir bardagann með átta sigra og þrjú töp og sterkasti andstæðingur Kolbeins á pappírum.
Kolbeinn naut mikilla yfirburða í bardaganum og sló Bosníumanninn tvisvar niður. Ein lota var skoruð 10-8 Kolbeini í vil og var engin spurning hvar sigurinn myndi enda þegar dómaraákvörðunin var kunngjörð. 40-35 sigur fyrir Kolbeinn og hans níundi sigur í jafn mörgum bardögum kominn í höfn.
Dasic var töluvert bólginn eftir bardagann á meðan sást ekkert á Kolbeini. Kolbeinn var þó svekktur með að hafa ekki klárað bardagann.
„Ég geri mér grein fyrir því að ég vann en ég er samt frekar ósáttur við sjálfan mig að hafa ekki náð að klára bardagann með rothöggi. Ég sló hann tvisvar niður en hann var ansi góður í að survive-a. Ég skal gefa honum fullt kredit fyrir það því ég lamdi hann alveg í klessu,” sagði Kolbeinn.