UFC 254 fer fram um helgina þar sem einn stærsti bardagi ársins verður á dagskrá. Khabib Nurmagomedov er ósigraður en á Justin Gaethje einhvern séns?
Justin Gaethje mætir meistaranum Khabib Nurmagomedov um helgina í stærsta léttvigtarbardaga ársins. Eftir að hafa skemmt stærsta léttvigtarbardaga allra tíma með stórkostlegum sigri á Tony Ferguson, mætir Gaethje til leiks fullur sjálfstrausts og telja margir hann eiga besta möguleika af öllum í þyngdarflokknum á að enda ótrúlega sigurgöngu meistarans. En hvers vegna telur fólk Gaethje geta hið ótrúlega, sem engum hefur tekist áður?
Áskorandinn
Justin Gaethje er með frábæra ferilskrá úr háskólaglímunni og einn besti háskólaglímumaðurinn í léttvigt UFC. Hann var All-American (á topp 8 í þyngdarflokknum) í efstu deild í bandarísku háskólaglímunni en það er frábær árangur. Gaethje kom inn í UFC sem ósigraður meistari úr WSOF með 17 sigra.
Hann var þekktur fyrir að eiga skemmtilega bardaga og það breyttist ekki þegar hann kom í UFC. En stíllinn hans var ekki að skila sigrum í stærstu bardögunum og því ákvað hann að breyta til eftir töp gegn Dustin Poirier og Eddie Alvarez. Eftir hugarfarsbreytingu þar sem Gaethje ákvað að hann vildi ekki bara eiga skemmtilegustu bardagana heldur verða meistari hefur hann unnið fjóra bardaga í röð og klárað þá alla með rothöggi – þrjá í fyrstu lotu.
Stærstu breytingarnar má sjá í skynsamari pressu þar sem Gaethje notar stungu og „faint“ til að finna fjarlægð og setja upp þung högg með hægri hendi og góðan vinstri krók. Fótavinnan er einnig allt önnur og úthugsuð þar sem hann bakkar sjaldan í beinni línu heldur kemur sér alltaf út til hliðar í stað þess að enda fyrir aftan svörtu línuna nálægt búrinu. Þessi vopn urðu til þess að Gaethje var fyrsti maðurinn til að klára Tony Ferguson í UFC og stöðvaði lengstu sigurgöngu allra tíma í léttvigt UFC.
Standandi viðureign
Í standandi viðureigninni telja flestir að Gaethje komi til með að hafa yfirhöndina. Khabib hefur þó sýnt bætingar á því sviði í gegnum árin og sló meðal annars niður Conor McGregor sem margir telja vera einn þann besta í standandi viðureign í léttvigtinni. Khabib leggur mesta áherslu á snarpa stungu standandi sem hann fylgir stundum eftir með hægri hendi. Í seinasta bardaga sínum sýndi Khabib einnig fín spörk. Hans sterkasta vopn er þó ógnin af fellum og hefur hann getað beitt henni til að koma inn höggum. Þannig tókst honum t.d. að slá niður McGregor.
Vörnin hans standandi hefur ekki verið upp á marga fiska en virtist einnig vera orðin betri í seinasta bardaga þar sem hann hreyfði höfuðið í stað þess einungis að setja upp hendurnar og snúa sér í burtu eða reyna fellu eins og hann hafði gert í bardögunum á undan.
Gaethje hefur undanfarin tvö ár unnið mikið með þjálfaranum sínum í að bæta sig og hefur hann tekið stökk fram á við en var auðvitað að gera marga góða hluti áður. Í seinasta bardaga sínum sýndi hann góða tilfinningu fyrir staðsetningu sinni í búrinu og kom sér alltaf undan þegar hann var kominn aftur fyrir svörtu línuna, en þetta hafa fyrri andstæðingar Khabib lent í vandræðum með.
Hann passaði einnig að bakka ekki í beinni línu sem boðar mjög gott. Gaethje notar snarpa og öfluga stungu til að stjórna fjarlægðinni milli sín og andstæðingsins og setja upp hin vopnin sín (Sjá mynd 1).
Ein og sér er hún þó nóg til að valda miklum skaða og stöðvaði Gaethje síðasta bardaga sinn með stungu. Þá hefur Gaethje lækkað sparkið sem hann var frægur fyrir og notar nú meira kálfaspörk til að taka fæturnar undan andstæðingum sínum í stað þess að sparka í lærið. Þetta ætti að vera gott vopn gegn Khabib þar sem vopnið er langt og bíður ekki upp á fellu sem gagnárás eins og venjulegt spark í læri gerir. Að lokum er Gaethje með góðan vinstri krók en hann á það einnig til að skipta yfir í örvhenta stöðu og notar þá hægri krók. Vinstri krókur, svokallaður „check hook“ gæti verið gott vopn til að refsa Khabib þegar hann kemur inn.
Í gólfinu
Í gólfinu hefur enginn fundið leið til að stöðva Khabib þegar hann kemst ofan á. McGregor gerði vel í fyrstu lotu að berjast við hendurnar og um gripin en hafði ekki orku í að halda því áfram þegar leið á bardagann. Dustin Poirier sagði við hornið sitt eftir aðra lotu að hann gæti hreinlega ekki náð Khabib af sér. Báðir enduðu þeir á því að gefa á sér bakið og Khabib kláraði báða með hengingu.
Khabib er þekktur fyrir öflug högg í gólfinu og stöðu sem nefnd hefur verið dagestönsk handjárn (e. Dagestani handcuff) eftir honum þar sem hann læsir aðra hendina fyrir aftan bakið á andstæðing sínum og lætur síðan höggin dynja (sjá myndir 2 & 3).
Khabib er einnig duglegur að læsa fótum andstæðinga sinna sem eru upp við búrið í kross með eigin fótum (sjá mynd 4). Þetta gerir það að verkum að andstæðingurinn þarf að byrja á því að leysa á sér fæturna sem reynist erfitt þar sem þeir eru í lélegri stöðu. Á meðan er Khabib að láta höggin dynja. Andstæðingar hans hafa því erfitt val – nota hendurnar til að verja hausinn en vera áfram fastur eða nota hendurnar til að ýta Khabib af sér og éta högg í leiðinni. Ekki auðvelt val fyrir andstæðinga Khabib.
Khabib er einnig duglegur að komast fram hjá fótum andstæðingsins, hvort sem það er með því að kasta fótunum til hliðar, hoppa í „half guard“ eða renna hnénu (e. knee slide) framhjá fótunum. Hann lætur síðan höggin dynja og notfærir sér allar opnanir sem bjóðast til að bæta stöðu sína. Khabib hefur sýnt að hann getur haldið gríðalegri pressu í gólfinu eins lengi og þarf til að fá andstæðing sinn til að gefast upp eða bardaginn klárast.
Gaethje hefur ekki reynt eina fellu í UFC og aðeins verið tekinn niður tvisvar. Því er ekki mikið að miða við þar en í bæði skiptin sem hann var tekinn niður eyddi hann mikilli orku í að komast aftur upp. Þetta boðar gott fyrir Khabib sem notar fellur og stjórn í gólfinu til að þreyta menn. Þessar fellur komu þó báðar áður en Gaethje breytti stílnum sínum og því á eftir að koma í ljós hvort hann hafi einnig breytt einhverju þegar kemur að glímunni.
Staðan sem ræður úrslitum?
Gaethje hefur talað um að allar fellur Khabib komi upp við búrið enda sé Khabib sterkastur þar. Besta leiðin til að verjast fellum upp við búrið er að enda ekki með bakið upp við búrið og þar er fótavinnan lykilatriði. Fyrsta vörnin er því til staðar fyrir Gaethje. Aftur á móti nær Khabib öllum einhvern tímann upp við búrið, hvort sem það er með því að skjóta inn fyrst og ýta mönnum upp við búrið, eða með því að pressa á þá standandi og labba í gegnum höggin þeirra.
Khabib er gríðarlega sterkur upp við búrið og er mikið að taka menn úr jafnvægi með því að krækja í hælana á þeim í bland við „double leg“ og „single leg“ (sjá mynd 5). Hann hefur nýlega notað mikið „single leg“ þar sem hann lyftir andstæðingnum og sparkar standfætinum undan þeim.
Þegar menn reyna að standa upp og enda á fjórum fótum er Khabib einnig góður að setja þungan á framhandleggina á þeim og þreyta menn þannig þar til hann dregur þá niður (mynd 6). Khabib notar allan líkamsþunga sinn til að hanga á þeim þar til hann dregur þá niður. Það fer ekki mikil orka í þetta fyrir Khabib á meðan andstæðingurinn ber allan þunga Khabib.
Poirier reyndi að stöðva Khabib með því að nota „guillotine“ hengingu með hendina inni og með því að nota „switch“ úr glímunni. Hengingin komst nálægt því að virka en hvorugt dugaði sem vörn og endaði Poirier alltaf á botninum.
Það er því lykilatriði fyrir Gaethje að koma sér frá búrinu eins fljótt og hann getur ef hann endar þar. Líkleg vopn til þess eru „underhook“ og að nota höfuðið til að snúa stöðunni við og síðan olnbogar þegar hann kemur sér úr „clinchinu“.
Khabib gegn Justin Gaethje er bardagi þar sem tveir mjög mismunandi stílar mætast og báðir menn munu reyna að koma fram sínum vilja frá fyrstu mínútu. Nær Gaethje að halda sig af búrinu, höggva niður lappirnar á Khabib með kálfaspörkum og stjórna fjarlægðinni með því að refsa Khabib í hvert skipti sem hann stekkur inn? Eða nær Khabib að nota pressuna sína til koma Gaethje upp við búrið, stjórna honum þar og í gólfinu og láta höggin dynja þar til Gaethje gefur á sér bakið eða bardaginn verður stöðvaður? Við fáum svar við því á laugardaginn þegar UFC 254 fer fram.