Um helgina fer fram bardagakvöld í Las Vegas þar sem aðalbardaginn er milli Jairzinho Rozenstruik og Ciryl Gane. Þeir tveir eru meðal þeirra bestu standandi í þyngdarflokknum en báðir hafa bakgrunn í sparkboxi og báðir hafa klárað um 90% af sínum bardögum í MMA.
Rozenstruik notar mestmegnis gagnárásir og er tilbúinn að bíða eftir sínu tækifæri til að ná inn góðri gagnárás. Þetta getur kostað hann lotur þar sem hann gerir lítið. Til að reyna að stela lotum sækir Rozenstruik einu sinni til tvisvar í lotu í fléttu þar sem hann blandar vel saman höggum í höfuðið, hnjám, olnbogum og skrokkhöggum. Ef andstæðingurinn er enn standandi eftir fléttuna fer Rozenstruik í sama farið að bíða.
Sterkustu vopn Rozenstruik eru tvö – annars vegar lágspörk og hins vegar fremri höndin. Lágspörkin eru u.þ.b. eina vopnið sem hann notar sem þarf ekki að vera gagnárás en fremri hendin hefur landað honum flestum af hans rothöggum í UFC en er best sem gagnárás. Ef andstæðingurinn nær að halda fjarlægð og Rozenstruik kemur ekki vinstri hendinni sinni inn á hann það til að „shifta” og nær þá oft andstæðingnum með hægri sem fremri hendi (sjá mynd 1).
Mynd 1. Dos Santos náði að forðast fremri hendi Rozenstruik og halda honum í burtu með langri stungu þannig að Rozenstruik a) pressar hann upp við búrið og b)&c) skiptir um stöðu meðan hann sækir upphögg og setur upp d) fremri krók með hægri hendi.
Gane berst í langri stöðu og skiptir oft um fótastöðu. Hann hefur langan faðm og í lokaðri stöðu (sjá mynd 2a) notar hann stungu og lágspörk, auk góðra gagnárása ef andstæðingurinn stígur inn. Í opinni stöðu (sjá mynd 2b) notar hann spörk í skrokk og höfuð, framspörk og bein högg. Til að loka á árásir andstæðingsins með fremri hendi notar Gane „handtrap“ sem hann getur notað til að sækja (sjá mynd 3) eða breytt í ramma ef andstæðingurinn nær að losa fremri hendina (sjá mynd 4). Gane stígur oft inn úr opinni stöðu og skiptir um stöðu meðan hann lokar fjarlægðinni og lendir hné í skrokkinn eða yfirhandar hægri.
a) Lokuð staða er þegar báðir bardagamenn hafa sama fót fyrir framan, þetta gerir erfiðara að sækja með aftari hendi eða með sparki í miðsvæðið þar sem fremri öxl andstæðingsins lokar á aftara högg og einungis bakið er opið fyrir aftara spark. b) Opin staða er þegar bardagamennirnir hafa sitthvorn fótinn fyrir framann og naflar þeirra snúa í sömu átt. Þetta gerir það að verkum að leiðin er greiðari fyrir aftari hendi og aftari fót að lenda í höfuð eða skrokk andstæðingsins.
a)&b) Gane grípur ofan á úlnlið Mayes og ýtir vörninni hans niður á sama tíma og hann c) kemur með olnboga yfir vörnina og í höfuð Mayes.
a) Gane byrjar strax að reyna að stjórna hendi Mayes þegar Mayes lokar fjarlægðinni. b) Mayes lyftir hendinni upp og kemur sér undan gripinu en c)&d) Gane heldur hendinni úti og notar sem ramma til að halda fjarlægð.
Gane á það til að skjóta í fellur þótt honum gangi vel standandi. Hann berst í karate stöðu og er mikið á tánum og það getur tekið á, sérstaklega á jafn stóran skrokk. Í gólfinu höfum við séð hann standa sig mjög vel hingað til, hann er bæði góður að bæta stöðu sína og sækja í uppgjafartök.
Líklegt útspil bardagans
Rozenstruik hefur áður lent í vandræðum með hreifanlegan andstæðing sem lokaði á fremri hendina hans þegar hann barðist við Alistair Overeem. Rozenstruik var að tapa þeim bardaga þar til hann lenti loksins þungu höggi þegar aðeins 10 sekúndur voru eftir. Því ber að hafa augun opin fyrir þungu höggi frá Rozenstruik fram á síðustu sekúndu.
Líklega mun bardaginn líkjast bardaganum gegn Overeem þar sem Gane notar opna stöðu til að loka á fremri hendi Rozenstruik. Gane hefur lengri faðm en Overeem og Rozenstruik og notar því líklega bein högg og ramma til að halda fjarlægð. Ef Rozenstruik nær að loka fjarlægðinni er ekki ólíklegt að Gane reyni fellu og Rozenstruik hefur ekki sýnt góða felluvörn hingað til. Rozenstruik hefur þó varist vel í gólfinu og því ekki víst að Gane geti klárað bardagann þar.
Þar sem Gane er mjög hreyfanlegur, notar mikið af „faints“ og sækir frá mismunandi vinklum verður líklega erfitt fyrir Rozenstruik að vita hvenær hann á að reyna gagnárásina sína. Því er líklega hans sterkasta vopn í þessum bardaga lágsparkið og ef hann nær að hægja á Gane með lágspörkum gæti Rozenstruik tekið yfir og jafnvel klárað bardagann hratt.
Báðir menn skilja oft hökuna á sér eftir hátt uppi meðan þeir skiptast á höggum og því gæti bardaginn hæglega endað með rothöggi – enda alltaf góðar líkur á því í þungavigtinni. Ef Gane er passasamur á fremri hendi Rozenstruik og bregst vel við lágspörkunum ætti hann þó að geta siglt heim öruggum sigri og komið sér inn í topp baráttuna í þungavigtinni.