UFC 237 fór fram um helgina í Brasilíu. Í aðalbardaga kvöldsins sáum við Jessica Andrade rota Rose Namajunas og er hún því nýr strávigtarmeistari kvenna.
Allt leit vel út hjá Rose Namajunas á laugardaginn eða allt þar til Namajunas var bara skellt á hausinn. Namajunas kom greinilega vel undirbúinn fyrir árásir Andrade og var með mjög flotta fótavinnu framan af. Andrade gerði samt betur þegar leið á bardagann og notaði meðal annars lágspörkin til að hægja á Namajunas. Joanna Jedrzejczyk gerði það sama í seinni bardaganum gegn Namajunas.
Bóndastyrkurinn frá Andrade var geggjaður. Hvernig henni tókst að lyfta Namajunas tvisvar hátt upp og kasta var svakalegt. Við höfum séð hana áður gera þetta við andstæðinga sína en aldrei með þessum afleiðingum.
Rétt áður fannst mér Andrade vera að komast betur inn í bardagann. Namajunas var að rústa henni í 1. lotu en Andrade var að sækja verulega í sig veðrið. Namajunas fannst mér vera að þreytast í 2. lotunni og hraðinn ekki sá sami. Þetta var samt alveg geggjaður bardagi og væri til í að sjá þetta aftur ef Namajunas hættir ekki.
Það er reyndar stóra spurningin eftir helgina. Er Namajunas bara í alvörunni kominn með leið á MMA og öllu því sem fylgir að berjast? Namajunas var ekki mjög skýr í svörum sínum á laugardaginn en ýjaði að því að henni fannst vera pressa á sér að berjast aftur sem fyrst – annars hefði UFC hent upp bráðabirgðarbelti sem var eitthvað sem hún vildi ekki sjá. Gleðin hjá henni er ekki sú sama og þá reynir mikið á samband hennar og Pat Barry (fyrrum bardagamaður og er þjálfari Namajunas). Ég held að hún muni berjast aftur en held samt að hún eigi ekki mikið eftir ef hún er farin að tala svona. Hún kannski tekur sér aftur góða pásu og kemur svo aftur í 2-3 ár áður en hún hættir. Finnst alltaf eins og þegar bardagamenn- og konur eru farin að tala svona þá sé lítið eftir.
Jessica Andrade á síðan nóg af valmöguleikum fyrir sína fyrstu titilvörn. Líklegt verður að Joanna Jedrzejczyk fái fljótlega tækifæri gegn Andrade enda er hún eina konan sem hefur unnið Andrade í strávigtinni. Ég samt eiginlega nenni ekki að sjá Joanna sem meistara alveg strax, langar í eitthvað nýtt. Það verður gaman að sjá Andrade sem meistara og væri ég mest til í að sjá Tatiana Suarez ef henni tekst að vinna Ninu Ansaroff í júní.
Embed from Getty ImagesAnderson Silva tapaði síðan eftir hnémeiðsli sem var leiðinlegt. Jared Cannonier sparkaði nokkrum sinnum í innanvert læri Anderson Silva en eftir eitt sparkið hneig Anderson niður og stöðvaði dómarinn bardagann. Heimildir herma að Anderson hafi verið tæpur í hnénu fyrir bardagann. Hann þurfti ekki að fara upp á spítala á laugardaginn en fór í myndatöku á hnénu í dag. Óvíst er hvers konar meiðsli um er að ræða en miðað við Instagram færslu Anderson í dag er hann ekkert á því að hætta.
Það er bara frekar sorglegt enda er hann með sex töp, einn sigur og einn bardaga dæmdan ógildan í síðustu átta bardögum sínum. Það er ekkert spes hjá einum besta bardagamanni allra tíma. Tapið segir okkur heldur ekki mikið um Anderson í dag en bardaginn var nú ekkert sérstaklega skemmtilegur á meðan hann varði. Anderson sótti lítið eins og hann hefur verið að gera undanfarin ár og var í það minnsta á leiðinni að tapa fyrstu lotunni.
Jared Cannonier sagði fyrir bardagann að hann ætlaði að sparka í lappirnar á Anderson og það gerði hann. Það vildi bara svo til að hann var að sparka í slæmt hné Anderson, hnéð gaf sig og gat Anderson ekki haldið áfram. Það er leiðinlegt að bardagi endi svona en svona er þetta stundum.
Jose Aldo var síðan mjög slappur gegn Alexander Volkanovski. Kannski var það þar sem Volkanovski leyfði Aldo ekki að ná neinum takti en Aldo gerði eiginlega ekkert yfir þrjár lotur. Aldo má vera vonsvikinn með þessa frammistöðu og var eins og hann hefði bara ekki mætt til leiks.
B.J. Penn setti svo met með því að tapa sjöunda bardaga sínum í röð í UFC. Enginn hefur tapað jafn mörgum bardögum í röð í UFC og er skelfilegt að sjá mann sem var eitt sinn svo góður reyna að halda áfram. Penn er núna 12-13 í UFC og með bardagaskorið 16-14-2. Penn leit allt í lagi út í 1. lotu en eins og svo oft áður fjaraði út hjá honum.
Eðlilega spyrja allir sig; hvers vegna í ósköpunum er hann að þessu? Penn á greinilega erfitt með að halda áfram með lífið sitt eftir MMA og samkvæmt fyrrum eiginkonu hans á hann við fíkniefnavanda að stríða og notar undirbúning fyrir MMA bardaga sem leið til að halda sér edrú. Ummæli hans um að hann ætli sér að verða meistari aftur eru bara sorgleg. Fólkið í kringum hann hlýtur að reyna að sannfæra hann eins og þau geta að halda ekki áfram. Kannski er það ekki hægt en kannski ættu þjálfarar hans bara að neita að þjálfa hann. UFC ætti síðan að sjá sóma sinn í því að hætta að gefa honum bardaga. UFC má samt eiga það að Penn er ekki að fá bardaga gegn stórhættulegum bardagamönnum. Ryan Hall og Clay Guida eru ekki þekktir fyrir rosalegan höggþunga (samt tókst Guida að slá Penn niður).
Það sorglega við þetta er að hann myndi sennilega geta fundið sér einhvern þjálfara sem væri til í að þjálfa hann og myndi bara berjast annars staðar ef UFC myndi segja upp samningi hans. Það er lítið hægt að gera ef viljinn er enn til staðar þar sem ekki eru allir í þessum bransa að hugsa um vellíðan bardagamanna.
Næstu helgi er síðan UFC bardagakvöld í New York þar sem þeir Rafael dos Anjos og Kevin Lee mætast í aðalbardaga kvöldsins.