spot_img
Monday, December 23, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night 67: Condit gegn Alves

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night 67: Condit gegn Alves

Thiago Alves

UFC Fight Night 67 fór fram í Brasilíu núna um helgina. Kvöldið féll aðeins í skuggann af frábæru bardagakvöldi um síðustu helgi en skilaði mjög góðum bardögum og eftirminnilegum atvikum.

MMA er oft á tíðum harkaleg íþrótt. Um síðustu helgi var til að mynda John Makdessi kjálkabrotinn eftir hart spark frá Donald Cerrone. Um þessa helgi var það nefið á Thiago Alves sem var mölbrotið eftir hárnákvæman olnboga frá Carlos Condit. Þessi harka og meiðslin sem því fylgir er ekki fyrir viðkvæma en er óhjákvæmilega hluti af íþrótt sem þessari og hluti af þeim áhrifamætti sem íþróttin hefur.

Þó svo að meiðslin geta verið slæm er mikilvægt að sjá faglegar ákvarðanir teknar í kjölfar þeirra. Eftir læknisskoðun á milli lotna var bardagi Thiago Alvegs og Carlos Condit stöðvaður og sá síðarnefndi úrskurðaður sigurvegari. Thiago Alves var greinilega miður sín en stundum þarf að vernda harða íþróttamenn fyrir sjálfum sér. Carlos Condit átti sigurinn fyllilega skilið en hann sýndi frábæra takta, stóð nánast beint fyrir framan Alves og kom inn betri höggum. Condit hefur með þessu minnt rækilega á sig enn á ný sem topp leikmann í veltivigt UFC.

Annar frábær bardagi var viðureign Charles Oliveira og Nik Lentz í fjaðurvigt en þeir höfðu mæst áður árið 2011 í bardaga sem var stöðvaður eftir ólöglegt hnéspark og úrskurðaður ógildur. Bardaginn var mjög fjörugur en það var Charles Oliveira sem var með yfirburði mest allan tímann.

Í fyrstu lotu var hann ekki langt frá því að stöðva Lentz með þungum hnjáspörkum í skrokkinn. Að lokum gerði Charles Oliveira út um bardagann með þéttri „guillotine“ hengingu í þriðju lotu. Með sigrinum og frammistöðu sinni sýndi Charles Oliveira að hann hefur bætt sig mikið og er tilbúinn í þá bestu í þyngdarflokknum. Vonandi fær hann einhvern slíkan næst, eins og Ricardo Lamas eða Max Holloway. Það væri líka gaman að sjá hann kljást við Conor McGregor eftir ár eða svo.

Fyrr um kvöldið var ýmislegt sem vert er að nefna. Rony Jason sigraði Damon Jackson með frábærri „triangle“ hengingu í fyrstu lotu og fékk fyrir vikið „performance of the night“ bónus. Hinn bónusinn fékk Charles Oliveira.

Á einhvern undraverðan hátt tókst svo Franciso Trinaldo að sigra á skorspjöldum dómaranna gegn Norman Parke eftir að hafa tapað tveimur lotum nokkuð skýrt. Smá heimadómur þar á ferð en Norman Parke sór eftir bardagann að berjast aldrei aftur í Brasilíu. Ryan Jimmo snéri einnig aftur en leit hræðilega út. Kannski hafði þó mjög slæmt spark í punginn eitthvað um það að segja. Að lokum verður að nefna flotta frammistöðu Alex Oliveira gegn K.J. Noons en hann kláraði Noons með „rear-naked choke“ í fyrstu lotu.

Annað Fight Night fer fram um næstu helgi en þá mætast þeir Dan Henderson og Tim Boetsch í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular