spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Hunt vs. Oleinik

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Hunt vs. Oleinik

UFC hélt sitt fyrsta bardagakvöld í Rússlandi um síðustu helgi. Mark Hunt tapaði fyrir Aleksei Oleinik í aðalbardaga kvöldsins en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Það fór svo sem ekki mikið fyrir bardagakvöldinu hjá hinum almenna bardagaaðdáenda enda fátt um stór nöfn á kvöldinu. Þetta var þó mjög stór viðburður í Rússlandi en rúmlega 22.000 áhorfendur voru í höllinni og voru flestir áhorfendur mættir mjög snemma um kvöldið. Um var að ræða 5. stærsta bardagakvöld í sögu UFC með tilliti til áhorfendafjölda.

Aðalbardagi kvöldsins fór fram í þungavigt og hafði svo sem ekki mikil áhrif á þungavigtina með tilliti til titilsins. Oleinik hefur vissulega unnið fjóra af síðustu fimm bardögum sínum og var að vinna topp 10 andstæðing en Oleinik er aldrei að fara að fá titilbardaga. Hans mörk eru vel þekkt og er hann ekki að fara að klífa neitt hærra upp verandi 41 árs gamall. Þessi bardagi hafði því voðalega litla þýðingu fyrir utan að vera bara ágætis afþreying fyrir áhorfendur. Það er líka bara allt í lagi og skemmtu áhorfendur sér vel við að sjá heimamanninn klára Mark Hunt í 1. lotu.

Bardagi Jan Blachowicz og Nikita Krylov hafði aðeins meiri þýðingu fyrir þyngdarflokkinn en Blachowicz sigraði með hengingu í 2. lotu. Blachowicz hefur skyndilega unnið fjóra bardaga í röð og er kominn nálægt titilbardaga. Blachowicz bað um titilbardaga en ætli Daniel Cormier muni ekki bara sitja á sínum léttþungavigtartitli þangað til hann klárar Brock Lesnar bardagann?

Andrei Arlovski var hræðilegur á móti Shamil Abdurakhimov og sá síðarnefndi litlu skárri. Það er ágætt að ekki sé verið að rota Arlovski aftur og aftur en það er hræðilegt að sjá hann svona hikandi. Hann gerir eiginlega ekkert í bardögum sínum og á eiginlega ekki heima í UFC lengur miðað við síðustu frammistöður. En Arlovski er nafn og UFC mun sennilega halda áfram að nota hann á kvöldum í Evrópu og Asíu.

Herb Dean gerði sitt besta til að herma eftir vanhæfa dómaranum Mario Yamasaki og leyfði bardaga Khalid Murtazaliev og C.B. Dollaway að halda alltof lengi áfram. Það sáu það allir nema dómarinn reyndi að Dollaway var löngu hættur og vildi ekki halda áfram. Samt leyfði hann Murtazaliev að kýla og kýla í hreyfingarlausan Dollaway þar til lotan kláraðist. Furðulegt að sjá svo reyndan dómara klikka svona.

Petr Yan átti síðan geggjaðan bardaga gegn Jin Soo Son og fengu þeir verðskuldað bónus fyrir besta bardaga kvöldsins. Reyndar fékk Son ekki sinn bónus enda náði hann ekki vigt en bardaginn var frábær.

Næsta bardagakvöld fer fram nú á laugardaginn þar sem þeir Eryk Anders og Thiago Santos mætast í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular