spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Volkan vs. Smith

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Volkan vs. Smith

Embed from Getty Images

UFC hélt lítið bardagakvöld í Montcon í Kanada um helgina. Í aðalbardaga kvöldsins mættust þeir Volkan Oezdemir og Anthony Smith en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Anthony Smith kláraði Volkan Oezdemir með hengingu í 3. lotu í fínasta aðalbardaga kvöldsins. Oezdemir byrjaði betur og átti fyrstu tvær loturnar á meðan Smith virtist vera orðinn þreyttur strax í 3. lotu. Smith náði hins vegar bardaganum í gólfið og kláraði fimlega.

Nú er Anthony Smith búinn að vinna alla þrjá bardaga sína í léttþungavigtinni og er hann kominn nálægt titilbardaga. Einhvern veginn er ég ekki sannfærður um að hann eigi séns á að verða einhver meistari. Hann er skemmtilegur, alltaf gaman að sjá hann berjast, með fáa veikleika en samt ekki nógu góður til að vinna Gustafsson, Jones eða Cormier að mínu mati. Ekki sannfærður um að hann sé að fara að veita þeim bestu einhverja áskorun. Samt ekkert að því að vera stuðbardagamaður í UFC.

Smith er líka gott dæmi um hvað léttþungavigtin er þunn. Það þarf ekki nema þrjá sigra (þar af tveir gegn gömlum köllum) til að þú sért kominn í návist titilbardaga. Ef hann væri í léttvigt eða veltivigt væri sagan önnur. Gian Villante var líka um tíma á topp 15 í léttþungavigtinni en ef hann væri í léttvigt væri hann sennilega að berjast á einhverjum litlum bardagakvöldum í New Jersey en ekki í UFC. Smith er samt líka gott dæmi um að þú þarft ekkert endilega að vera í léttari þyngdarflokki til að vera sem bestur. Smith var ekki nálægt toppinum í millivigtinni (sem er nú samt sterkari flokkur en léttþungavigt) en er nú kominn í topp 5 í þyngri þyngdarflokki á hálfu ári.

Volkan Oezdemir stóð sig ágætlega framan af en vantar kannski meiri reynslu gegn topp andstæðingum. Fannst eins og hann hefði alveg getað gert atlögu að því að klára Smith í gólfinu með því að taka bakið og reyna að ná hengingunni en það var eins og hann þorði ekki að fara alla leið í að reyna að klára með uppgjafartaki. Hann er góður en það er rými til framfara á mörgum sviðum.

Artem Lobov tapaði sínum þriðja bardaga í röð og er nú 2-5 á ferli sínum í UFC. Ekkert sérstakur árangur þar á ferð og spurning hvort hann haldi starfinu í UFC. Artem Lobov er afar takmarkaður bardagamaður, fyrirsjáanlegur en samt skemmtilegur og bara svona ekta bardagamaður. Bardagar hans eru samt skemmtilegir og svo á hann ansi áhrifaríkan vin og það gæti bjargað starfinu hans. Vinsældir hans trekkja að og ef hann verður látinn fara frá UFC fær hann eflaust nokkur góð tilboð frá öðrum bardagasamtökum.

Planið hans Lobov er alltaf að standa og skiptast á höggum en var aldrei nálægt því að meiða Michael Johnson í bardaganum og hefur ekki náð að kýla einn andstæðing niður í UFC. Rússneski hamarinn er ekki að ná miklum árangri með þessum stíl sínum en mun sennilega seint breyta til. Hann er líka ekki beint að gera sér auðvelt fyrir með því að velja alltaf stærstu áskorunina og hefði hann alveg getað fengið auðveldari andstæðing en Michael Johnson. Það er samt sennilega hluti af vinsældum hans sem bardagamanns.

Calvin Kattar átti síðan góða frammistöðu og Misha Cirkunov náði í nauðsynlegan sigur á Patrick Cummins. Fínasta bardagakvöld en næstu helgi fáum við UFC 230 frá Madison Square Garden í New York.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular