spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Volkov vs. Struve

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Volkov vs. Struve

UFC er komið aftur af stað eftir mánaðarpásu. Um helgina fengum við bardagakvöld í Rotterdam í Hollandi þar sem Alexander Volkov sigraði Stefan Struve en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir helgina.

Aðalbardagi kvöldsins var skemmtilegur slagur í þungavigtinni þar sem Alexander Volkov kláraði Stefan Struve með tæknilegu rothöggi í 3. lotu. Þetta var þriðji sigur hans í jafn mörgum bardögum í UFC og er hann hægt og rólega að klifra upp listann.

Hið endalausa vandamál augnpota lét sjá sig í bardaga þeirra. Struve potaði tvisvar í augu Volkov í 2. lotu og slapp með skrekkinn í bæði skiptin. Dómarinn Marc Goddard tók ekki stig af Struve heldur gaf honum viðvörun í bæði skiptin. Það er sífellt verið að tala um augnpotin en ekkert virðist ætla að breytast. Struve hélt opnum lófanum fyrir framan andlit Volkov ítrekað og var í raun bara heppinn að pota ekki oftar í augu Rússans. Það er búið að segja þetta margoft en harðari refsingar við augnpotum verða að sjást oftar í búrinu. Það virðist alltaf borga sig að svindla þar sem bardagamönnum er nánast aldrei refsað fyrir brot á reglunum.

Nú er stóra spurningin hver verður næsti andstæðingur Volkov. Francis Ngannou hefur verið nefndur til sögunnar en hann hefur ekkert barist síðan í janúar og átti auðvitað að mæta Junior dos Santos á UFC 215 áður en sá síðarnefndi féll á lyfjaprófi. Kannski vill UFC sleppa því að etja tveimur efnilegum þungavigtarmönnum gegn hvor öðrum og fer Volkov þá kannski í reyndari kappana. Cain Velasquez gæti verið stórt próf fyrir Volkov ef hann er tilbúinn til að snúa aftur fljótlega.

Það næst markverðasta á kvöldinu var sigur Mairbek Taisumov á Felipe Silva. Þetta var fimmti sigur Taisumov í röð eftir rothögg og er löngu kominn tími á að hann fái almennilegt próf. Viðtalið við hann eftir bardagann var líka kostulegt þar sem hann grátbað UFC um að gefa sér topp 10 andstæðing.

Meiðsli og vandamál með vegabréfsáritun hafa aftur á móti haldið aftur af honum. Hann bíður alltaf upp á skemmtun í búrinu og á hann skilið að fá stærri nöfn. Fyrst og fremst þarf hann samt að halda sér heilum og koma vegabréfsmálunum sínum í lag til að fá þessa stóru bardaga.

Næsta UFC kvöld er á laugardaginn þegar UFC 215 fer fram en þar eru tveir titilbardagar á dagskrá. Demetrious Johnson mætir þá Ray Borg um fluguvigtartitilinn og Amanda Nunes og Valentina Shevchenko mætast um bantamvigtartitil kvenna.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular