spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Werdum vs. Tybura

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Werdum vs. Tybura

Aðfaranótt sunnudags var bardagakvöld í Sydney, Ástralíu sem bar kannski ekki sérlega mikið á. Í aðalbardaganum mætti svo fyrrverandi þungavigtarmeistarinn Fabricio Werdum hinum höggþunga Marcin Tybura.

Það var talsvert höfðað til heimamanna á bardagakvöldinu en fjórir af sex bardögunum á aðahluta kvöldsins innihéldu Ástrali. Það var engin flugeldasýning í gangi í bardögum kvöldsins og allir sex bardagar á aðalhluta bardagakvöldsins fóru í dómarákvörðun en þar af voru þrír ákvarðaðir eftir klofna dómaraákvörðun.

Werdum enn ekki nógu góður fyrir Miocic

Fabricio Werdum er orðinn fertugur og á ekki innistæðu fyrir mörgum bardögum í viðbót. Hann hefur þó lýst yfir vilja sínum til að endurheimta beltið af Stipe Miocic sem hirti titilinn af honum á seinasta ári eftir rothögg í fyrstu. Það er nokkuð þunnur þrettándi í toppnum á þungavigtinni þessa dagana og sannfærandi sigur hefði mögulega tryggt Werdum titilbardaga. Eftir þessa frammstöðu tel ég þó líklegast að sigurvegari Overeem-Ngannou verði næstur til að gera atlögu að titlinum.

Werdum sýndi ágætis takta á laugardagskvöld; boxhæfileikar hans eru sífellt að batna og hann er farinn að flétta saman höggum og spörkum með mun betri hætti en fyrir örfáum árum síðan. Maður á samt erfitt með að sjá hann fyrir sér sigra Miocic sem er einfaldlega á öðru plani standandi. Í gólfinu eru þó fáir sem standast Werdum snúninginn svo ég myndi ekkert horfa í hina áttina ef UFC ákveður að henda í Werdum-Miocic 2.

Þriðji ósigur Bec Rawlings í röð

Það er skrítið að hugsa til þess í dag en Bec Rawlings var talsvert vinsæl meðal MMA-aðdáenda þegar hún var að stíga sín fyrstu skref í MMA. Leiðinlegir taktar í TUF og slakur árangur í búrinu hefur þó orðið til þess að Rawlings er karakter sem aðdáendur elska að hata. Hún tapaði á laugardaginn þriðja bardaga sínum í röð og hefur tapað fimm af síðustu sjö. Að auki var bardaginn lítið fyrir augað og spurning hvort Rawlings fái uppsagnarbréf í vikunni. Hugsanlega gæti þjóðernið bjargað henni og hún fær einn séns í viðbót. Sem stendur er UFC ekki beint að springa úr efnilegu bardagafólki frá Ástralíu þó Robert Whittaker sé frábær en þá er það eiginlega upptalið.

Spennandi efni í þungavigtinni?

Þrátt fyrir slakan aðalhluta bardagakvöldsins voru nokkrir öflugir bardagar á upphitunarhluta kvöldsins. Þar fengum við meðal annars að berja augum ungan ástralskan þungavigtarmann, Tai Tuivasa, sem er ekki nema 24 ára gamall. Í eldgamalli þungavigtardeild er hann algjör kjúklingur og það verður gaman að sjá hvort hann geti hrist aðeins upp í topp 15. Tuivasa er ósigraður og hefur sigrað alla bardaga sína með rothöggi í fyrstu lotu. Á laugardaginn var engin breyting þar á og hann rotaði andstæðing sinn með fljúgandi hnésparki sem sjá má hér að neðan:

Næsta UFC kvöld fer fram á laugardaginn í Sjanghæ þar sem Kelvin Gastelum mætir Michael Bisping í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Guttormur Árni Ársælsson
Guttormur Árni Ársælsson
-Pistlahöfundur -Fjólublátt belti í BJJ -Lýsi UFC á Viaplay þegar Pétur hefur eitthvað merkilegra að gera
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular